Helgarrausið


Enn ein boltahelgin framundan og ég held áfram minni eigingjörnu, sjálfmiðuðu umfjöllun um mín lið jafnvel þó að áhugasamir lesendur séu kannski af skornum skammti og íslenskumælandi stuðningsmenn sömu liða fylli vart litla rútu.

Hvað sem því líður þá er það nú svo, að ef eitthvað, þá er áhuginn meiri núna en kannski oft áður og var þó varla á það bætandi. Má vera að þetta sé bara tímabundið ástand og það sljákki í manni þegar líður á tímabilið. En, ef marka má síðasta tímabil þá þykir mér líklegt að ég þurfi bara að lifa með þessu.  Það sem sennilega viðheldur áhuganum í þessum hæðum er sú nálægð við þennan heim sem ég bý nú við. Að fara reglulega á völlinn þar sem þúsundir eru mættar og upplifa stemninguna, læra og syngja söngvana, spjalla við og kynnast skemmtilegum stuðningsmönnum, allt vigtar þetta til að ýta undir þá fótboltaást sem ég hef alið með mér.
Við erum kannski að tala bara um að þetta sé að gerast í tengslum við tiltölulega lítið knattspyrnufélag hér í heimabænum sem á seinustu árum hefur verið að reyna að standa í lappirnar eftir áratuga meðalmennsku. Jú, einmitt, og það er málið. Það þarf ekkert meira til.

Ég hef á þessum stutta tíma vaknað til meiri vitundar um það hvað stuðningsmenn eru mikilvægir og margvíslegir. Úr fjarlægðinni heima á Fróni er það algengt að áhugamennirnir flykkist að stóru og ríku liðunum og „glory hunters“ fara þar í lange baner. Einn og einn tekur svo „fáránlega“ ákvörðun um að sigla á móti straumnum og velur sér, af einhverjum „fáránlegum“ ástæðum eitthvað „fáránlega“ annað. Síðan býr viðkomandi við það að taka við háðsglósum og hroka þeirra sem  farið hafa auðveldu leiðina. Endalaust ertu beðinn um einhverja réttlætingu á þeirri ákvörðun sem þú tókst. Engin spyr; Afhverju Man.Utd eða afhverju Liverpool?
Virðingin fyrir því að hafa ekki sama hjarðeðlið og „allir“ hinir er lítil eða engin og á sama tíma og þú ert í tilfinningalegum rússíbana á leiðinni niður, já eða upp, þá glotta menn yfir sérlundaða sérviskupúkanum.

Það er gaman að ræða þessa hluti við heimamenn. Hér snýst þetta ekkert um það að þurfa að réttlæta eitt né neitt. Á sama tíma og menn „hata“ þetta eða hitt liðið og stuðningsmenn þess þá er hún svo rótgróin viðurkenning á nauðsynlegri tilvist þeirra og menn sjá það í hendi sér hversu innantómt og tilgangslaust þetta væri án þeirra.
Hér í Bretlandi eru milljónir stuðningsmanna sem eyða miklum peningum í að styðja sitt lið. Þeirra lið er kannski „bara“ í neðstu deild. Það er líka mögulega svo að líkurnar á því að liðið fari eittthvað hærra eru hverfandi. Fyrir þessum stuðningsmönnum verður þessi deild þeirra úrvalsdeild og þeirra draumur nær ekkert lengra en að fara upp. Þetta eru ekkert ómerkilegri stuðningsmenn en aðrir og þeirra heimur er í megin dráttum sá sami, nema í smækkaðri mynd. Hins vegar er ekkert hægt að „smækka“ þá upplifun sem þessir stuðningsmenn eiga af sínum sigrum og það er svo merkilegt að þeir virðast hafa alveg jafn gaman að þessu og aðrir stuðningsmenn. Höfum þetta hugfast og sýnum öðrum stuðningsmönnum ávallt tilhlýðilega virðingu á milli þess sem við „hötum“ þá á leikdegi.

Ég ætlaði mér ekkert út í þetta raus og tímabært að fjalla stuttlega um leiki minna liða þessa helgina.
Mínir heimamenn í Aberdeen eiga útileik í dag gegn Partick Thistle. Það er orðin ár og öld síðan þeir hafa byrjað deildarkeppni með fjórum sigrum í röð, hvað þá að þeir verði 5 eins og gæti orðið raunin í dag. Ég fer ekki með Rauða hernum í þessa ferð en sit heima og fylgist með á Red TV.
Ég ætla að spá öruggum 2ja marka sigri og ég sé það í hendi mér að nýr sóknarmaður okkar Josh Parker sem kominn er frá FK Crvena Zvezda (Red Star Belgrade), opni markareikning sinn.

Að þessum sigri loknum sest ég yfir leik Sociedad og Gijon í beinni á Sky. Líkurnar á því að þetta verði skemmtilegt eru álíka miklar eins og þær að ég fari að kjósa Framsóknarflokkinn. Gijon náði markalaus jafntefli heima gegn Real Madrid í fyrstu umferð á sama tíma og mínir gerðu markalaust jafntefli úti gegn Deportivo.
„Ég hefði betur drukkið ofan í þunglyndislyfin“ sagði einn stuðningsmaður um árið þegar hann hafði setið yfir leiðinlegum fótboltaleik. Í versta falli get ég hellt upp á mig ef ég tel andlegri heilsu minni ógnað en ég er reyndar ekki lengur á þunglyndislyfjunum. Hins vegar hef ég stórar áhyggjur af því að Moyes geti valdið öldu þunglyndistilfella í Baskalandi ef ekki lifnar þar yfir boltanum, og meina ég þá fyrst og fremst skemmtanagildinu.
Þetta verður markalaust þar til á 85. mínútu að Illarmendi fagnar heimkomunni með skoti af löngu færi sem dauðliggur inni.

Morgundagurinn býður svo upp á aðra veislu í beinni. Mínir gulu og grænu fara til Southampton og spila þar leik sem Koemann segir að hans menn verði að vinna.
Ég hef engar áhyggjur af mínum mönnum og tel að þeir eigi góðan möguleika á að ná í stig úr þessum leik. Ég yrði sæmilega sáttur við 1 og tel það líklegustu niðurstöðuna.
Annars er staðan óvenjulega magnþrungin fyrir þennan leik og snýst það mun meira um annað en leikinn sjálfan. Róteringar félagsins á markaði eru í kastljósinu og sú staðreynd að lítið virðist ganga hvort sem um er að ræða út eða inn veldur stuðningsmönnum áhyggjum. Þetta gæti orðið óvenju fjörugir dagar sem eftir eru af glugganum, öfugt við það sem við eigum að venjast.

Að lokum má ég svo til með að nefna að ég á mitt lið í utandeildinni ensku. Sumum boltspjellingum er þetta kunnugt og minnast þess þegar ég ritað um það félag pistil á opinberum vettvangi (öðrum en þessum).
Svo skemmtilega vill til að Forest Green Rovers eru með fullt hús stiga eftir 5 umferðir og markatöluna 10 – 1. Kannski er komið að því að fara loksins upp í deildarkeppnina. Það var alla vega yfirlýsing hins stórmerkilega eiganda félagsins fyrir skömmu.
Dale Vince þykir undarlegur sérviskupúki og hugmyndir hans um flesta hluti framúrstefnulegar eða í það minnsta “öðruvísi”.
Enn skemmtilegra í þessu samhengi er að einn af boltspjellingum hefur hrifist af FGR og spurðist af honum í sambandi við Skandinavíska stuðningsmannafélagið.
Ég veit að þessi sami boltspjellingur ber líka leyndar tilfinningar til Norwich City og þó svo að ég viti að það sé langsótt þá er gaman að láta sig dreyma um að einhvern daginn komi hann allur út úr skápnum 🙂

Höfum gaman af því að vera til. Elskum boltann !

Tippdeild hennar hátignar – 4. umferð.


Tippdeild okkar boltspjellinga heldur áfram. Það er hörku barátta eins og sjá má ef menn kíkja á síðu deildarinnar hér að ofan.
Hetjuspár möguleikarnir eru hér aftan við leiki umferðarinnar. Ég hvet þátttakendur til að bregðast rösklega við og skila snemma.

Aston Villa – Sunderland             x2
Bournemouth – Leicester
Chelsea – C.Palace                         x2

Liverpool – West Ham                  x2
Man.City – Watford                       x2
Stoke – W.B.A.                                     2

Newcastle – Arsenal                        1
Tottenham – Everton
Southampton – Norwich               2

Swansea – Man.Utd
Huddersfield – Q.P.R.                    1x
Ipswich – Brighton
Sheff.Wed – Middlesbro

“Possession football” og árangurinn


Ég hef marg oft nefnt það hvað ég hef gaman af því að velta mér upp úr tölfræði fótboltans. Ég hef hins vegar lítið gert af því hér að deila með lesendum þessum vangaveltum mínum en ég gæti mögulega gert á því einhverja breytingu á næstunni.

Ég byrja hér á smá vangaveltum um „possession“ eða það sem ég kýs að kalla einfaldlega „spilið“.  Við fáum þessar upplýsingar meira og minna í hverjum leik. En hvað segja þær okkur þessar upplýsingar í raun og veru?
Það er augljóst þegar við fáum það á skjáinn að seinustu 10 mínúturnar hefur annað liði verið með 70% af spilinu, þá höfum við veitt því athygli að annað liðið hefur meira og minna verið með boltann. Hvað við höfum orðið vitni að, að öðru leyti, getur svo reynst óskaplega misjafnt. Við gætum hafa séð liði sem stýrir leiknum vaða í færum og skora mörk á þessum tíma yfir í að ekki hafi skapast eitt einasta færi.  Í stóra samhenginu segja því þessar prósentutölur okkur lítið einar og sér. En, þær gefa klárlega vísbendingar og segja okkur mögulega eitthvað um líkurnar.

Af töflunni hér að neðan gætum við dregið þá ályktun að „kick & run“ fótbolti lifi góðu lífi og sé árangursríkur. Liðið sem situr í 2. sæti deildarinnar með fullt hús stiga er það lið sem minnst hefur haft af spilinu í fyrstu leikjum deildarinnar.
Þetta hlýtur að gefa vísbendingu um það að þessar upplýsingar verði að setja í nýtt samhengi svo sem leikaðferð en ekki síst spyrja spurninganna um gæði spilsins.

Í rannsóknum spekinga á íþróttinni eins og hún er spiluð í MLS kom í ljós að lið eru líklegri til að ná árangri ef þau eru með minna en 50% spilsins. Þetta kölluðu menn þar á bænum „counter-intuitive phenomenon.“
Nú má vera að fótboltinn í henni Ameríku sé spilaður í heildina á svolítið annan veg en það sem við helst fylgjumst með en engu að síður verulega athyglisverðar niðurstöður.
Þegar öllu er á botninn hvolft þá er það hvað þú gerir með boltann þegar þú hefur hann sem skiptir mestu máli. Gæði spilsins. Hvað þú skapar, ef eitthvað. Eða með orðum fyrrum „dircetor of football“ hjá Liverpool, Comolli:

„There is less of a correlation between possession and success than we supposed… it tends to be overrated by most clubs.”

Niðurstöður úr ensku úrvalsdeildinni  sýndu að á tímabilinu 2010/11 hafði sigurlið að meðaltali 50,1% af spilinu. Á fimm tímabilum frá 2009 til 2014 fór þessi tala einungis einu sinni einu sinni upp í tæp 60% en þó nær 60 en 50 að meðaltali.
Hins vegar ef þetta er skoðað í meistaradeildinni, þá má sjá að lið sem hafa meira af spilinu vinna í 67% tilfella.
Ef veikari deildir eru skoðaðar í samanburði við þær sterkustu þá virðist iðulega mega finna að líkurnar hafa snúist við og liðin sem eru meira með boltann eru líklegri til að tapa. Svo dæmi sé tekið þá skoðuðu menn Áströlsku A-League og þar var 57% líkur á að liðið með meira spil tapaði leik sínum. Hafa menn reynt að færa rök fyrir því að ástæðan sé að betri leikmenn þurfi til að spila „possession football“.

Í þessari grein Jonathan Liew hjá The Telegraph segir m.a:

„But as a means for predicting the winner of a football game, possession is deeply unreliable. A far better metric in this regard is shots on goal, or “shot supremacy”: the ratio of shots on goal to shots conceded, which has been proven to have a strong correlation with points.

More often, possession is the by-product of a good team, rather than the other way round. The higher the standard of the competition, the more likely you are to find players with the skill levels required to play successful possession football.“

Niðurstöður Liew í grein hans eru athyglisverðar og tengir hann þær m.a. við Mourinho sem er í miklu uppáhaldi hjá honum. Ég ætla ekki að rekja þær hér enda ekki sammála þeim að fullu.
Hitt er klárt að þetta eru skemmtilegar pælingar og niðurstaða mín kannski þessi í stuttu máli:
Hversu mikið þú hefur af spilinu stendur fyrir lítið nema að það sé bakkað upp af annarri tölfræði s.s. fjölda hornspyrna, krossa, færi sköpuð, skot auk þess að halda sömu tölum í skefjum á þinum enda með góðri varnarvinnu.

Eftirfarandi tafla með þeim niðurstöðum sem þar eru, gefa okkur því í mesta lagi ákveðnar vísbendingar en lítið annað á þessum tímapunkti. Þegar líður á mótið verður gaman að skoða hvernig fara saman tölur um „possession“ og árangur.

Arsenal 60.7

Norwich 59.3

Man City 59.1

Swansea 56.8

Everton 55.65

Liverpool 54.4

West Ham 54.15

WBA 53.2

Man U 52.3

Bournemouth 51.85

Chelsea 51.6

Spurs 51.4

Sunderland 49.85

Southampton 49.75

Watford 49

Stoke 46.95

Newcastle 44.9

Aston Villa 43.1

Crystal Palace 38.65

Leicester 36.95

Að lokum ein athyglisverð tölfræði sem ég sá á Sky Sports í dag. Á fyrsta tímabili úrvalsdeildarinnar var algengt að enskir leikmenn væru um og yfir 70% af leikmönnum í hverri umferð. Um seinustu helgi voru 30% leikmanna enskir.

Tippdeild hennar hátignar – 3. umferð


Tippdeild hennar hátignar hefur farið vel af stað og lítið skilur á milli manna, með kannski einni undantekning  🙂
Hér kemur 3. umferðin og hvet ég þátttakendur til að skila inn snemma að vanda.
Frekari upplýsingar um deildina má finna ef smellt er á krækju hér að ofan.

1. C.Palace-A.Villa     10  0  0      x2
2. Leicester-Tottenham   4  2  4      
3. Norwich-Stoke         7  2  1       2
 ---------------------------------     
4. Sunderland-Swansea    0  0 10      1x
5. W.Ham-Bournemouth    10  0  0      x2
6. Bolton-Nott.For.      8  1  1      x2
 ---------------------------------     
7. Brighton-Blackburn   10  0  0      x2
8. Charlton-Hull         3  2  5      
9. Fulham-Huddersfield  10  0  0      x2
 ---------------------------------     
10. Preston-Ipswich       8  1  1     x2 
11. Q.P.R.-Rotherham     10  0  0     x2 
12. Reading-MK Dons      10  0  0     x2 
13. Hacken-Malmö FF       2  0  8      1

Dánarfregnir og jarðarfarir


Fyrsta umferð að baki og sennilega nokkurt spennufall á meðal okkar félaganna sem hvað harðast fylgjumst með. Sama hvað hver segir þá eru liðin vegin og metin sem aldrei fyrr í fyrsta leik og menn hafa tilhneigingu til að draga stórar ályktanir, of stórar ályktanir eins og margoft hefur sýnt sig. Þetta er áberandi núna og er ég þá kannski fyrst og fremst að vísa til viðbragða veðbanka en sveiflur á þeim bænum hafa endurspeglast vel í úrslitum umferðarinnar.

Spádómar pöndita eru okkur Norwich-mönnum í óhag, heldur betur. Þetta er dramtískt og nánast í stíl andlátsfrétta og líkræðna. Á sömu nótum syngur almannarómur jarðarfarasálmana.
Enn frekari stuðning fengu þeir sem bölsýnis megin eru fyrir hönd minna manna, þegar úrslit lágu fyrir á laugardaginn var. Mátti í kjölfarið sjá að NC voru orðnir líklegasti valkostur veðbankanna fyrir fall úr úrvalsdeildinni að vori. Breytti  þar engu um hvernig leikurinn spilaðist og hvað fjölmiðlar á staðnum töldu sig sjá, 1 – 3 var yfirgnæfandi staðreyndin sem menn hengdu sig í, með örfáum undantekningum. Sumir meira að segja gripu haldlausar klisjur og voru greinilega ekki að horfa á leikinn þegar þeir upplýstu að helstu vopn Norwich væru langar sendingar og krossar.

Það var bara annað liði sem reyndi að spila fótbolta, hafði tæp 65% af „possession“ og tæpar 400 sendingar á móti 200 hjá Palace, sem nota bene var það lægsta sem sást í fyrstu umferðinni. Það var sömuleiðis  bara annað liðið sem spilaði „kick & run“ fótbolta í þessum leik og það voru ekki mínir menn. Ætla ég svo ekkert frekar að segja um dómgæsluna í þessum leik sem var kapituli útaf fyrir sig eins og fram hefur komið. Ætla ég þó að bæta hér inn krækju á umfjöllun Ian Wright um atvik úr leiknum.
Ég verð því að segja að mér finnst dómharkan mikil og forsendurnar haldlitlar eins og menn eiga eftir að komast að raun um. Jafnvel þó frekara mótlæti eigi eftir að koma okkar veg þá skulu menn minnast dæmisögunnar um Lasarus.
Ég hef fulla trú á því að við getum náð hagstæðum úrslitum á útivelli um helgina gegn Sunderland og skelli á þetta 1 – 2.

Öll þessi neikvæða umræða er félaginu og stuðningsmönnum erfið. Þetta smitar út frá sér og flökkuliðar (fickle fans) í hópi stuðningsmanna sem hafa litla sjálfstæða hugsum og berast með vindunum eins og þeir blása hverju sinni eitra út frá sér á spjallborðum og sjá dauða og djöful í hverju horni. Helst er það staðan í leikmannamálum sem er mönnum hugleikin. Við erum ekki að ná að losa okkur við leikmenn sem þurfa að fara og okkur gengur illa að laða til okkar þá leikmenn sem sigtaðir hafa verið út.
Sör Alex var hreinn og beinn á blaðamannafundi í morgun þegar þetta var til umræðu. „Some of the players we have gone for do not see us as a good proposition. That is the reality.“  M.ö.(mínum)o. við mætum ekki þeim launa- og samningskröfum sem lagðar eru fram og það þrengir stöðuna að við erum ennþá með of marga „farþega“.  Sör Alex nefndi einnig að áherslan hafi verið á breska (þá væntanlega írar með) leikmenn en þar væru verðmiðarnir komnir út úr kortinu. Hann er samt staðráðinn í, og það er í forgang, að ná að styrkja hópinn áður en glugginn skellur aftur eftir 18 daga. Ég hef fulla trú á að það gerist.

Mínir heimamenn hér í Aberdeen hafa farið vel af stað og eru með fullt hús stiga eftir 2 umferðir. Ég fer ekki á útivöll gegn Motherwell á morgun en vænti þess að garparnir komi heim með 3 stig.

Enn er vika í að La Liga byrji. Moyes var með háleitar hugmyndir fyrir hönd síns liðs í stuttri heimildarmynd sem ég sá á Sky Sports í vor. Ekkert bólar á stórum nöfnum úr úrvalsdeildinni og fátt markvert gerst á seinustu vikum sem ég er þá ekki búinn að nefna hér fyrr. Ég tel gott miðað við stöðu mála ef Moyes nær að hanga með þetta lið um miðja deild. Meira um það síðar.

Tippdeild hennar hátignar – 2. umferð


Hér kemur 2. umferð tippdeildar Boltaspjallsins. Þetta er ótrúlega klippt og skorið hjá spekingum ÍG og þ.a.l. fjöldi tækifæra til að hala inn bónus-stig út á hetjuspár eins og sjá má á eftirfarandi upplýsingum (til hægri).
1. Sunderland-Norwich    8  2  0       2
2. Swansea-Newcastle    10  0  0      x2
3. Tottenham-Stoke      10  0  0      x2
 ---------------------------------     
4. Watford-W.B.A.        8  2  0       2
5. West Ham-Leicester    8  2  0       2
6. Derby-Charlton       10  0  0      x2
 ---------------------------------     
7. Fulham-Brighton       9  1  0      x2
8. Ipswich-Sheff.Wed.    9  1  0      x2
9. Middlesbro-Bolton    10  0  0      x2
 ---------------------------------     
10. MK Dons-Preston       9  1  0     x2 
11. Nott.For.-Rotherham  10  0  0     x2 
12. GIF Sunds-Örebro     10  0  0     x2 
13. Malmö FF-Gefle       10  0  0     x2

Tippdeild hennar hátignar


Þá er þetta allt saman komið af stað og 17 spekingar hafa hafið leik í Tippdeild Boltaspjallsins. Það er varla hægt að birta heildar árangurinn á opinberum vettvangi því það er skammarblettur á þessu. Það er auðvitað með ólíkindum að allir nema einn skuli hafa fallið á fyrstu hindrun og ekki getað aulast til að finna ein örugg úrslit á 13 leikja seðli til að hengja sig í. Enn betra að 15 af 17 skuli hafa haldist í hendur fram af bjarginu og trúnni á Chelsea. Þar er vefstjóri í hópi þeirra seku og sér eftir því að hafa ekki hlustað á sjálfan sig þegar hann í umræðum við efsta mann (Alla) fyrir tveimur dögum síðan, upplýsti og tók undir raddir spekinga sem áttu ekki von á að því að framtíð Chelsea væri jafn björt og hjörðin vildi vera láta.

Hvað sem því líður þá er einn tippari Aðalsteinn J. Halldórsson, sem ber höfuð og herðar yfir aðra eftir þessa fyrstu umferð og fær hann titlinn, spámaður umferðarinnar. Ekki einungis náði hann að sýna þá skynsemi að hafa örugga réttan heldur hafði hann flesta einstaka leiki rétta að auki, eða 7. Þetta þýðir að hann hefur ótrúlega 6 stiga forystu.

Ég mun ekki einungis tilgreina spámann hverrar umferðar heldur einnig versta spámann hverrar viku og besta og versta spádóm hverrar umferðar.
Tvennir spádómar stóðu upp úr. Alli átti einn manna jafnteflis spádóm á leik Hacken – Gelfe. En spádóm vikunnar að þessu sinni á Hilmar Dúi sem einn manna setti tvist á viðureign Bournemouth og Aston Villa.

Það gæti reynst snúnara að velja versta spádóm hverrar viku, alla vega til að klína því á einn einstakan keppanda. Ef frammistaðan er skoðið í þessari fyrstu umferð þá stendur þrennt upp úr. Vefstjóri kemur sterkur inn með heimasigurs spádóm hans manna gegn Palace. Alli afrekaði það einnig að vera langt frá réttum þegar hann setur útisigur á Reading sem endaði sem heimasigur Birmingham. Hins vegar er bara ekki hægt annað en að taka þá hópskitu sem kostaði keppendur samanlagt 45 stig, og brennimerkja hana sem versta spádóm umferðarinnar. Heimasigur og „öruggi“ á Chelsea er því versti spádómur fyrstu umferðar og þeir taki það til sín sem eiga það.

Versti spámaður vikunnar er Andri Valur. Það þarfnast í sjálfu sér ekki skýringar en það er afreka að koma sér í mínus skor í þessari keppni

Þetta er ekki spurningin um að falla eða ekki falla


Það vantar ekkert upp á vangavelturnar um komandi tímabil í úrvalsdeildinni, nú þegar við stöndum á þröskuldinum og horfum fránum augum inn í framtíðina. Það dynja á manni spádómarnir úr öllum áttum, leikir og lærðir láta ljós sitt skína og yðar undirritaður ekki undanskilinn.
Eðli málsins samkvæmt er mér auðvitað hvað mest hugleikið það sem spekingar og aðrir hafa um mína menn í Norwich City að segja fyrir tímabilið. Það er ekki allt á sömu bókina lært en svakalega sem menn hafa, heilt yfir, litla trú á þeim þetta tímabilið. Hver fjölmiðilinn við annan spáir liðinu falli og það sama má sjá og heyra hjá pönditum í lange baner. Það er varla hægt að finna þann (tilfinningalega óháða) mann á byggðu bóli sem gefur möguleikan á einhverju öðru en falli eða fallbaráttu. Þetta er það versta sem ég man eftir undir sömu kringumstæðum.

Hvaða hafa menn svo fyrir sér þegar þetta er vegið og metið?  Í fæstum tilfellum er menn með einhverja greinargóða, rökstudda greiningu. Meira þetta hefðbundna; nýliðar, reynsluleysi, reynsluleysi stjórans og skortur á sterkum leikmönnum til að styrkja hópinn fyrir efstu deild. M.ö.o. lítið að gerast í leikmannakaupum.
Ég er auðvitað tilfinningalega hlaðinn og hlutlægur. Einhverjir væntanlega tilbúnir til að bæta því við að ég sé óraunsær og út úr korti. Hins vegar finnst mér að það megi alveg fær fyrir því rök að þetta þurfi nú ekki endilega að stefna í þennan dauða og djöful sem dreginn er upp út um allar tryssur.

Í fyrsta lagi má alveg benda á það að meint reynsluleysi leikmanna úr úrvalsdeild er, ef að er gáð, ekki jafn mikið og margir vilja halda á lofti. Það er einna helst að sjá að menn séu búnir að gleyma því að  NC eru að koma upp eftir einungis eitt tímabil niðri. Þrjú af seinustu fjórum tímabilum hafa spilast í efstu deild og öflugur kjarni leikmanna hefur verið og er til staðar.

Í öðru lagi horfa menn til Sör Alex, aldur og fyrri störf og það allt saman. Vissulega er engin trygging fyrir því að hlutirnir gangi upp hjá Alex Neil í vetur en það er líka hægt að segja um flesta ef ekki alla stjóra deildarinnar. Það er ekkert 100%.
Einhvers staðar verður að setja líkurnar og ég sé enga ástæðu til að stroka út það sem á undan er gengið í ferli Sör Alex sem stjóra þó svo að hann sé kominn upp um deild.  Það er merkilegt að sjá sömu pöndita (fjölmiðla) sem héldu ekki vatni af hrifningu yfir honum á síðasta tímabili láta eins og þarna sé óskrifað blað, allt í einu.
Málið er mjög einfalt, rétt eins og margtuggið var í tengslum við úrslitaleik umspils í maí. Þarna er ungur stjóri á ferðinni sem hefur á (stuttum) ferli sínum náð ótrúlega góðum árangri. Hann hefur allt sem til þarf og virðist hvoru tveggja hafa „man managment“ og „game managment“. Ég fullyrði því, hvað sem öðru líður, að liðið er í góðum, öflugum höndum.

Í þriðja lagi eru það leikmannamál, kaup og sölur.
Það er ekkert launungarmál að frá því að félagið skilaði sér upp í vor þá hafa þessi mál ekki þróast á þann veg sem vonast var til. Félaginu hefur mistekist við öflun leikmanna og það sem meira er þá gengur illa að losna við leikmenn sem voru „fringe“ leikmenn á síðasta tímabili og nokkuð augljóst að yrðu ekki inni í myndinni ef farið væri upp. Þetta, ekki síst, er það sem stendur öðru fremur í veginum fyrir því að pönditar/fjölmiðlar hafi trú á því að hlutirnir gangi upp á Carrow Road á komandi tímabili.

Ég hef útlistað, bæði vonbrigði og áhyggjur yfir stöðu mála. Nú er hægt að telja það í klukkutímum hvenær fyrsti leikur er flautaður á og það má vera að ekki verði nema 1-2 ný nöfn í byrjunarliðinu. Væri væntanlega hægt að segja 2-3 nema fyrir það að Mulumbu sem keyptur var frá West Brom brotnaði í æfingaleik og verður frá næstu vikurnar.

Menn mega setja í gang skítadreifarana  og setja sig í stellingar þar sem ég ítreka fyrri spádóm minn um 14. sætið. Þar með er ég ekki að segja að ég telji það raunhæft miðað við stöðu mála í augnablikinu en allur mánuðurinn er eftir og enn er unnið hörðum höndum við að finna öfluga leikmenn til að bæta í hópinn. Ég tel að við þurfum í það minnsta 2 varnarmenn og einn sterkan sóknarmann til að ná megi því takmarki að tryggja „þægilegt“ sæti.

Gangrýnisraddir spyrja hverju sætir að svona er komið. Félagið er skuldlaust og fjármagn er fyrir hendi til leikmannakaupa. Stjórinn hefur seinasta orðið en vinnan við öflun leikmanna er í höndum McNally og co.
Eins og bent hefur verið á þá gæti félagið vissulega verið búið að kaupa leikmenn og einhverjir væru væntanlega farnir að „panik-kaupa“ nú þegar. Það hefði verið hægt að gera þetta eins og QPR og allir að rifna úr bjartsýni bara vegna þess hvað búið væri að eyða miklu og kaupa þennan og kaupa hinn. Allir vita hvernig það fór.

Eftirfarandi atriði mega menn svo ræða fram og til baka:
Félagið hefur nokkuð þröngan launaramma sem menn hafa verið tregir til að útvíkka mikið. Standa launakröfur í veginum fyrir komu leikmanna til félagsins? Ekki veit ég það en ef menn ætla að lifa af í þessari deild þá er þetta kannski eitthvað sem kallar á meiri sveigjanleika.
Ef ekki tekst að selja leikmenn til að skapa svigrúm fyrir nýja leikmenn þá verður að skoða að taka bara á sig tap og gefa mönnum fría sölu og borga upp samninga. Það er mun betra en að vera með fullt lið af „farþegum“.
Fyrirhuguð stækkun vallarins hefur verið á bið í nokkur ár og má ekki bíða lengur. Aðferðin við það má samt ekki þrengja svo að félaginu að það sjái sér ekki kleift að keppa á markaðnum. Það hefur ekkert upp á sig að vera montið skuldlaust félag en einungis í næst efstu deild.
M.ö.o. þá liggur það fyrir að félagið getur ekki notað fjárhagslega stöðu sína sem afsökun fyrir því ef menn reynast ekki nægilega vel undir búnir fyrir tímabilið í efstu deild. Það má því ekki misfarast á þeim tíma sem er til stefnu að ná þeim takmörkunum sem menn settu sér í mannakaupum í vor.

Að lokum. Hér hafa menn þetta svart á hvítu, greinargóða úttekt sem ég stend og fell með. Í mínum huga var þetta og er þetta, ekki spurningin um að falla eða ekki falla. Miklu frekar spurningin um „þægilegt“ sæti eða sleppa fyrir horn. Ég trúi því að við sleppum fyrir horn jafnvel þó akkúrat ekkert gerist það sem eftir gluggans.

Í kvöld er ég á Pittodrie og vonast til að sjá mína menn landa sigri á Kairat Almaty. Verðlaunin gætu orðið stórt nafn í næstu umferð sem jafnframt er orðið umspil um þátttöku í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.
Ég mun hita upp með Rauða hernum og hyggst vera rosalega „dandy don“ að leik loknum.

1. umferð Boltaspjallsdeildarinnar 2015/2016


Þá er komið að því!
Hér fer af stað ný Tippdeild enn eina ferðina. Notast verður við gamalt og reynt afbrigði sem naut vinsælda þegar við spiluðum það fyrir nokkrum árum.

Það stefnir í góða þátttöku og áhugasamir geta sett sig í samband við vefstjóra og athugað hvort enn er pláss fyrir fleiri þátttakendur.

Hér koma svo reglurnar í eins fáum orðum og mér er mögulegt að hafa þær:

Áherslan á enska boltann og við fylgjum leikjalista ÍG á síðu 381-385 á textavarpinu
Eitt merki á leik (og eitt stig fyrir réttan leik)
Velja skal einn “örugga” í hverri umferð. -3 stig fyrir að hafa hann vitlausan.

Síðan er það “Hetjuspáin” útskýrð:
Spádómur verður hetjuspá ef neðangreind skilyrði eru uppfyllt. Þú getur unnið þér inn auka 2 stig (samtals 3 stig fyrir leik) ef þú hefur hetjuspá rétta.

*Stuðst skal við tippsíðu textavarpsins (bls. 381) til að “velja” þá leiki.
“Hetjuspá” er einfaldlega að spá þvert á spekinga textavarpsins (bls 385) með eftirfarandi hætti:

Dæmi: 8 – 0 – 2 og þú mátt velja útisigur sem “hetjuspá”. Hetjuspárgildið má samt aldrei vera hærra en 2.
Þetta gildir því um 10 – 0 – 0 og 9 – 1 -1 líka (og vissulega má snúa öllum þessum tölum við 2 – 0 – 8 osfrv.)
* Hins vegar er einungis hægt að hafa x sem hetjuspá ef annað hvort heima eða útisigur er með 0 eða 1
M.ö.o. tveir og hærra á 2 stöðum (dæmi: 8 – 0 – 2 ) og ekki er hægt.að velja jafntefli.
– Dæmi: 10 – 0 – 0 og 8 – 1 – 1 og 9 – 0 – 1 og þú getur valið x-ið sem hetjuspá.
Spilað frá byrjun móts og að áramótum. Önnur umferð eftir áramót ef menn eru klárir.

Þátttökugjaldið er 2000 krónur og skal það greitt fyrir 1. umferð keppninnar. Spá sína setja keppendur inn hér í athugasemdakerfið.

1. umferð, 8. ágúst

Chelsea – Swansea   1  – Öruggi
Bournemouth – Aston Villa   1
Everton – Watford   1

Leicester – Sunderland    x
Norwich – C.Palace   1
Birmingham – Reading   1

Blackburn – Wolves   2
Bolton – Derby Co.   x
Brentford – Ipswich   1

Charlton – Q.P.R.   x
Hull – Huddersfield    1
Falkenberg – Helsingborg   x
Hacken – Gelfe    1