Skelf á beinunum


Þetta verður mjög hraðsoðið í þetta skiptið en verð vonandi þeim mun duglegri í kommentakerfinu síðar í dag.
Ég setti 2-1 sigur á leik NC í dag á móti Dýrlingunum þegar ég henti spánni inn í Milljónpottakeppni Talksport.com. Ég hef samt ónotatilfinningu fyrir þessum leik og er skíthræddur. Andstæðingarnir virðast koma ágætlega brynjaðir til leiks á þessu tímabili og eru búnir að vera þéttir bakatil í þeim 3 leikjum (deild+bikar) sem búnir eru.
 

Það þarf að sýna dirfsku í dag og sækja til sigurs. Spörsarinn hefur verið skömminni skárri á heimavellinum í liðsvali sínu og ber ég því þá von í brjósti að sjá fleiri en einn framherja í uppstillingu dagsins. Ég áskil mér rétt til að breyta spá minni þegar liðsuppstilling liggur fyrir.

Boltinn hér á nýjum heimaslóðum


Það er óneitanlega nokkuð spennandi að vera nú kominn í ögn meira návígi við boltaheiminn þann, sem maður hefur með einum eða öðrum hætti, lifað og hrærst í síðan í barnæsku. Ég er þó ekki (ensku)úrvalsdeildarmegin, þó vissulega sé hér úrvalsdeild líka að nafninu til. Héðan frá Aberdeen er það svo alltaf allnokkuð fyrirtæki að ferðast á leiki í úrvalsdeildinni, sama hvernig á það er litið. Bæði tímafrekt og kostnaðarsamt. 

Næsti völlur í ensku úrvalsdeildinni er í Newcastle, í um eða yfir 400 km fjarlægð svona eftir því hvaða leið er farin. Menn sjá það í hendi sér að það er kannski ekki eitthvað sem maður er tilbúinn að hendast á einum degi, 800 kílómetra. Jafnvel þó maður kysi að taka lest þá erum við að tala um að lágmarki 7-8 klukkustunda ferðatíma. En markmiðið er engu að síður að reyna að koma sér á nokkra leiki Norwich í vetur og fyrsti leikur sem við Kanarífuglarnir hér í götunni erum að skoða, er einmitt á St. James´s þann 23. nóvember n.k.

Hér norðan megin búa menn við úrvalsdeild sem hefur haft á sér þann stimpil að vera ein minnst spennandi deild álfunnar. 2 lið hafa frá stofnun deildarinnar 1989, einokað hana algjörlega og eini spenningurinn í rauninni snúist um það hvort þessara tveggja liða taki titilinn. Þannig var það meira og minna líka áður en efsta deild skipti um nafn. Einungis tvisvar í sögu úrvalsdeildarinnar hefur annað lið en “The old firm” náð öðru sæti deildarinnar. Annað það skipti var í fyrra en þá þarf að hafa í huga að annað þessara stóru félaga, Glasgow Rangers, lagði upp laupana, gjaldþrota eftir glórulausa óstjórn og var því ekki með. Nýtt félag, Rangers FC var stofnað upp úr rústum þess gamla en það þurfti að byrja í neðstu deild.

Það þarf að fara alla leið aftur til 1984 og 85 til að finna annað nafn á skoskum meistarabikar en Celtic eða Rangers. Það var á blómatíma heimamanna hér í Aberdeen, þegar þeir undir stjórn Alex Ferguson urðu meistarar 2 ár í röð, tóku 4 bikarsigra heimafyrir, og svo, eins og frægt var, urðu Evrópumeistarar bikarhafa og unnu European Super Cup árið 1983.

Hér lifa menn því svolítið á fornri frægð og fátt til að hengja sig í hin síðari ár. Ekkert unnið síðan 1995. Aberdeen er eina liðið ásamt Celtic (og reyndar Ross County sem á stutta sögu í efstu deild) sem aldrei frá upphafi hefur fallið úr efstu deild. En þetta er orðin löng og ströng eyðimerkurganga síðustu áratugi og einhvern veginn hefur aldrei náðst að keyra félagið upp úr meðalmennsku deildarinnar eftir að blómaskeiðinu lauk.

Knattspyrnusamfélagið hér hefur liðið fyrir það, eins og reyndar víða annars staðar í landinu, hversu fábreytt landslagið er í boltanum og í öllum borgum og bæjum er stóru félögin 2 með ágætan stuðning þar sem hluti yngri kynslóðarinnar sérstaklega, hefur kosið að fylgja annarri stóru blokkinni (Celtic eða Rangers) enda alist upp við að nánast engir aðrir eru að vinna nokkurn skapaðan hlut.

Enska deildin nýtur svo auðvitað vinsælda hér líka sem annars staðar, enda skotar ávallt sett sterkan svip á deildina í gegnum tíðina, bæði leikmenn og stjórar, eins og menn þekkja. Hér í Aberdeen er áberandi mikill stuðningur við Man.Utd og skýrist það, eins og kannski er hrópandi augljóst, af Ferguson og sögu hans og fortíð hér.

Pittodrie er ágætur leikvangur sem tekur ríflega 22 þúsund manns í sæti.
Pittodrie er ágætur leikvangur sem tekur ríflega 22 þúsund manns í sæti.

Einhver merki eru um það að menn hyggist reyna að rífa hlutina eitthvað upp hér hjá Aberdeen FC. Mikið hefur verið talað um að nú sé tækifæri til að láta að sér kveða, landslagið sé að breytast og fyrirhuguð uppstokkun hjá skoska knattspyrnusambandinu komi til með að jafna peningaflæðið. Og svo sé núna kannski meiri möguleiki en áður að komast í Evrópu þar sem risinn er aðeins einn að keppa við um þessar mundir.

Hvort sem þetta er óskhyggjan ein og þessi svokallaði “feel good factor” sem menn hafa talað um að hafi verið óvenju hár í sumar, sé bara bergmál þess 30 ára afreks sem mikið hefur verið rifjað upp, samhliða því að Ferguson sest í helgan stein, á eftir að koma í ljós.

Ég er búinn að bregða mér einu sinni á Pittodrie og var það geysilega góð skemmtun. Sat ég þar í hópi heimamanna þegar Aberdeen fékk Celtic í heimsókn. Stemningin var mögnuð og völlurinn fullur. Heimamenn höfðu frumkvæðið þar til markvörður þeirra var sendur af velli og gestirnir tók forystuna úr vítaspyrnu. Hetjuleg barátta dugði þó skammt og undir lok leiksins þegar þreytan var farin að segja til sín, kom náðarhöggið og úrslitin 0-2.

Mér var vel tekið af Rauða hernum og þegar það spurðist út að ég væri nýr í bænum að mæta á minn fyrsta leik var keyptur handa mér trefill.  “We have to make him ours!” sagði glaðbeittur og hress miðaldra maður sem hengdi um hálsinn á mér trefilinn og meira sá ég svo ekki af þeim ágæta manni.

Einungis tíminn leiðir það í ljós hversu mikið og með hvaða hætti ég dett inn í boltalífið hér. Hins vegar er ég að fara aftur á völlinn í kvöld þegar Aberdeen mætir Alloa í bikarnum. Ég lenti nefnilega í því að geta ekki keypt mér miða sjálfur á Celtic-leikinn þar sem hann var “All ticket leikur” og ekki hægt að kaupa miða nema hafa “purchase history”. Ég fór því on-line og keypti ódýran miða á leik kvöldsins til að búa til mina “miða-kaups-sögu” og ætti því ekki að þurfa að fara krókaleiðir til að ná mér í miða eins og gerðist um daginn.

Það er sama sorgarsagan í bikarkeppnum hin síðari ár. Lítið til að gleðja stuðningsmenn og háðuglegar „dömpanir“ frá neðrideildar liðum hafa menn þurft að þola með reglulegu millibili. Það er því ekkert sjálfgefið að ég sé að fara á sigurleik í kvöld og ekki fylgdi mér mikil gæfa í seinasta leik.

Gult spjald á Spörsarann!


Það eru einungis tveir leikir búnir af tímabilinu og ég nýbúinn að lýsa yfir stuðningi við Spörarann á stjórastóli og ég finn mig strax knúinn að fara að draga í land. Öllum sem á annað borð hafa fylgst með skrifum mínum um NC ætti samt ekkert að vera brugðið, jafn gagnrýnin sem ég var á síðasta tímabili. Ég dró ekkert undan í þeirri gagnrýni minni og laut hún fyrst og síðast að leikaðferð og skemmtanagildi. Lið NC var með leiðinlegri liðum deildarinnar á síðasta tímabili. 

Þeir sem vörðu stjórann notuð gjarnan þau rök að hann væri í sjálfu sér ekki að spila öðruvísi fótbolta en þann sem mannskapurinn sem hann hefði byði upp á. Þessi rök hafa aldrei haldið vatni enda megnið af mannskapnum spilað glymrandi sóknarbolta undir stjórn Lamba. 

Ég var tilbúinn til þess að láta Spörsarann njóta vafans. Hann hefur haft sumarið til að sanka að sér mannskap sem hefur gengið vel og má hann eiga hrós skilið fyrir það. Augljóslega hefur verið farið á eftir leikmönnum til að blása lífi í sóknarleikinn, það held ég að allir “pönditar” hafi verið sammála um þegar horft er yfir hópinn. 

Það var því pínlegt að horfa upp á leik liðsins gegn Hull á laugardaginn var. Látum liggja á milli hluta hártoganir um dómgæsluna sem þó, ein og sér, réð miklu um úrslitin, og horfum á leik NC. Sama ömurlega útivallar, varnarsinnaða, varkára, minnimáttar, töpum-ekki hugarfarið og jafnvel einum leikmanni fleiri og marki undir voru engin merki þess að mannskapurinn væri að fá þau skilaboð að til þess að vinna leiki þurfi að sækja að marki andstæðinganna. Það er bara rétt eins og ekki sé gert ráð fyrir sóknarleik á útivelli, ekki einu sinni sem Plan B. svona þegar aðstæður hreinlega garga á það að láta nú vaða, nú sé tækifærið, þeir liggja vel við höggi! Svo er mönnum spilað út úr stöðum og róterað, að því er virðist tilviljannakennt, þennan leikinn svona og svo næsta einhvern veginn öðruvísi. 

Það er svona eins og stjórinn sé að reyna að vera of klár. Ákvörðun eftir ákvörðun er að koma þér á óvart því þér hefði ekki dottið hún í hug sjálfum. Þú fellur síðan í sömu gryfjuna og hugsar að þetta á eftir að líta rosaleg vel út hjá stjóranum ef þetta “trix” gengur upp. Hins vegar reynast trixin í trixa-bók Spörsarans álíka ábyggileg og loforðalisti Framsóknarflokksins. 

Það var huggun í eftirmála þessa leiks að sjá McNally taka undir gagnrýni stuðningsmanna þar sem hann m.a. RT-aði harðorðari yfirlýsingu áhanganda varðandi þessa síendurteknu uppákomur í útileikjum. Ekki í fyrsta skiptið sem hann gefur í skyn að hann er ekki að fullu sáttur með gang mála. Ég treysti því að ef ekki bregður til betri vegar og farið verður að spila fótbolta að stjórnin bregðist skjótt við og finni mann í stólinn sem er til í að gera ráð fyrir að leikurinn fari fram á báðum vallarhelmingum í einum og sama hálfleiknum.

Ég lyfti hér gulu spjaldi á Spörsarann!

Boltaspjalls leiðari – NCFC


Það er alltaf jafn góð tilfinningin síðsumars þegar boltinn fer að rúlla í ensku deildunum. Enn frekar eykur það á vellíðan að NC skuli byrja tímabilið í deild hinna bestu. Nú er það þriðja tímabilið í röð og sé ekki betur en full ástæða sé til að ætla að þau eigi eftir að verða mörg fleiri.

Það er einstaklega ljúft að renna yfir Boltaspjallsárin og rifja upp ýmsa þá umræðu og mörg þau ummæli sem fallið hafa. Öflugur kjarni einstaklinga hefur átt hér athvarf og umræður verið fjörugar og á köflum harðar. 

Eðli málsins samkvæmt hefur umræða um NC oftar en ekki verið í brennidepli. Hefur þar iðulega verið saumað hart að vefstjóra enda auðveldur skotspónn þar sem gengi félagsins á vellinum hefur ekki alltaf verið sem skyldi. Af nautnafullri ákefð þjörmuðu fastagestir spjallsins að vefstjóra, sumir harðar en aðrir, svo vellíðunnar stunurnar bergmáluðu í Víknafjöllunum. Þarna þöndu menn kassann yfirlýsingaglaðir, með langtíma hrakspár til handa Norwich City FC.

Hver stendur svo uppi með pálmann í höndunum? Hverjir eru ennþá að skíta hattaafgöngum, já eða hrútagærum?……..eða ætti ég að segja Hrútagærum? Hahaha….!


Ég velti því svo fyrir mér, í tilraun minni til að setja hlutina í samhengi, hvort það sé svo raunverulega tilfellið að minnkandi áhugi manna á Boltaspjallinu sé í beinu sambandi við gott gengi NCFC. Það er nefnilega þannig að þeir sem harðastir og af mestri innlifun tóku hér slaginn á móti (og stundum með) vefstjóra, hafa smátt og smátt horfið, eða í það minnsta takmarkað komur sínar hér svo verulega að rétt getur talist í mýflugumynd.

Getur það verið, að sú staðreynd að ekki er lengur hægt að sparka í vefstjórann liggjandi, þar sem hann aumur, marinn og blár tekur slaginn í „annari“ eða „þriðju“ deild, hefur orðið til þess að jafnvel hörðustu  boltspjellingar hafa farið undan í flæmingi.

Ég skora nú á þá sem farið hafa í felur að skríða til baka úr híðum sínum. Menn verða bara að gíra sig upp á nýtt, jafna sig og horfast í augu við það að hafa haft rangt fyrir sér um NCFC og að nú verði að taka umræðuna á jafnræðisgrunni. Beini ég sérstaklega orðum mínum til þessa ágæta vinar míns og félaga sem barmaði sér hvað hæst yfir meintum eineltistilburðum mínum gagnvart Luis Suarez og lét sig hverfa algjörlega af þessum vettvangi um hríð. 

NCFC

Mínir menn hafa ekki setið auðum höndum síðan í vor og ætla ég rétt að renna yfir mitt álit á því sem gerst hefur í leikmannamálum. Þetta verður einungis í fáum orðum, klippt og skorið. 

Í fyrsta lagi vil ég fagna því að félagið hefur ekki þurft að selja neina af sínum sterkustu leikmönnum og staðið af sér ágang og hnus annrra félaga í kringum okkar menn.

 Í annan stað (málfarsáhrif í boði Jóns Baldivins Hanibalssonar), vil ég lýsa yfir ánægju minni með öll kaup sumarsins. Lýsi samt efasemdum mínum gagnvart þessum seinasta gjörningi að taka Elmander að láni frá Galatasary, út tímabilið. Það eina góða sem ég sé við þá ráðstöfun er að hann skuli ekki hafa verið keyptur, orðinn 32. ára gamall. 

Allar „sölurnar“ 14 (u.þ.b. held ég) get ég skrifað upp á nema eina. Paul Lambert veit hvað býr í hinum unga markverði Jed Steer.
Hesturinn seldur fyrir 4 millj. og það tel ég góða sölu fyrir leikmann sem farið er halla undan hjá. Hann getur átt eftir að spjara sig eitthvað áfram en þetta var rétt ákvörðun.
 

Ég er ekki fyllilega öruggur með Hughton á stjórastólnum. Augljóslega má draga þær ályktanir út frá leikmannakaupum að meiri áhersla verði á sóknarleik. Ég er bara ekki viss um nema að stjórann bresti kjarkinn þegar á hólminn er komið. Hann hefur svo sem aldrei haft orð á sér fyrir að vera mikill sóknarboltamaður og virðist vera varkár og varnarsinnaður að upplagi. Alla vega er það algjör krafa að minni hálfu að í vetur verði skemmtilegri fótbolti á boðstólum en það sem boðið var upp á í fyrra.
Jafn sáttur og ég var fyrir rest með 11. sætið þá má ekki gleyma því að liðið var í fallhættu þegar kom að 3. seinustu umferð.
 

Í þeirri von að Sjéntilmaðurinn finni réttu blönduna og upplifi sig sæmilega afslappaðan með að hleypa mönnum fram fyrir miðju, spái ég mínum mönnum 9. sætinu.

Jú, jú, ég er hér…


….er hér mættur á ný, kæru boltspjellingar. Vissulega hef ég haft þumalinn á boltapúlsinum en algjörlega verið fyrirmunað að nenna pistlapikki á síma eða spjaldtölvu. Eins og flestum fastagestum hér ætti að vera kunnugt hef ég nú gert strandhögg á austurströnd Skotlands og bý ég nú í Aberdeen.

Ég mun nú hægt og rólega koma mér í gang og stefnan sett á innlegg þegar nær líður helginni. Stefnir í spennandi tímabil og gaman að velta fyrir sér þeim allmiklu landslagsbreytingum sem þegar hafa átt sér stað frá s.l. vori. 

Ég læt það svo ráðast af virkninni hér og fjölda heimsókna hvað ég tóri. Þessi síða var komin á þann stað að þessu var nánast sjálfhætt. Þetta “spjall” lifir ekkert á mér og mínum skoðunum einum. Mínar skoðanir eru léttvægar og ástæðulaust að stofna til rykfallinar, rafrænnar skjalgeymslu til að þeim sé haldið til haga. Gef þessu einhverjar vikur að ná upp traffík, að öðrum kosti loka ég búllunni. 

Það væri gaman að heyra í fastagestum og hvar þeir sjá helstu tíðindin auk þess sem ég gef, af gefnu tilefni, spurninga-skotleyfi á vefstjóra.

Að lokum vil ég svo minna þá boltspjellinga á, sem ætluðu að halda þessu lifandi í sumar, að aðsendir pistlar eru velkomnir, hér eftir sem hingað til.