Spörsarinn = Óforbetranlegur leiðinda fótbolti


Miklar vangaveltur eru þessa dagana um stöðu Spörsarans á stjórastólnum á Carrow Road. Eins og kunnugt er þá hef ég verið verulega gagnrýninn á stjórann það sem af er þessa árs. Tölfræðin talar sínu máli auk þess sem fótboltinn sem boðið er upp á er álíka spennandi og harðlífi.

Því meira sem ég hugsa það þeim mun sannfærðari er ég um nauðsyn þess að skipta út.  Það má vera að við eigum eftir að taka 2 -3 míní-rönn á þessu tímabili og það má jafnvel vera að við eigum eftir að skila okkur í þokkalegt sæti um miðja deild, þegar upp er staðið í vor.
Það sem stendur í mér og vegur í mínum huga þyngst, er sú sannfæring að hversu þægilegt sætið er sem við í besta falli gætum náð, þá verður fótboltinn aldrei nema leiðinlegur. Stíll og taktík þessa stjóra er mér engan veginn að skapi og ég sé það ekki breytast.

Fyrrum leikmenn hafa íjað að því sama í viðtölum eftir að hafa yfirgefið félagið. Morison kvartaði eftir að hann fór frá félaginu og hér er síðan tilvitnun í Hestinn og hans upplifun á þeirri breytingu sem átti sér stað við seinust stjóraskipti:

I felt my career at Norwich had run its course when I left for Wigan this summer. I didn’t enjoy the last year. Don’t get me wrong, I still had some good times that year and made some good friends among the lads but I just didn’t enjoy my football.

At the end of the season it was successful and kept us up but I didn’t enjoy playing the way we were and I thought it was right for me to move on.

Under Paul Lambert we used to attack and press and be more high tempo. We scored something like 32 goals in the last 15 minutes under him at Norwich. He had the enthusiasm and attitude, ‘You score two and we’ll score three’. As a forward, I was getting chances and people were around supporting to me.

Chris Hughton was much more defensive. He wanted to do everything in shape but I was a lot more isolated and doing more defensive work than I did.

It’s a team game and who am I to dictate what I want to do? So I did my job for the team, I achieved what I wanted to at the club and Norwich stayed up – which I hope they do again – and I thought the time was right to go.

They’d signed lads to bring in and if he wanted his own men in to play his style that was fine.

Augljóst er af þessu og öðrum viðbrögðum sem maður hefur heyrt að ekki var mikil kátína á Carrow hjá þeim leikmönnum sem spiluðu mest undir stjórn Lamba. Nýr maður kom inn með því sem næst algjörlega andhverfu þess hugsunarháttar sem hafði viðgengist og mórallinn beið hnekki.  Síðan hafa jafnvel stöku athugasemdir og „Tvít“ annarra leikmanna einnig mátt túlka sem nettan pirring á leikaðferð Spörsarans.

Stjórinn segir meira og minna alla réttu hlutina og segist skilja væntingarnar og svo framvegis. Það sem hann hins vegar gerir (eða gerir ekki) er engan veginn þess eðlis að jafnvel þó einhver skilningur sé fyrir hendi þá er ekkert sem bendir til breytinga. Með örfáum undantekningum inn á milli er þetta sama andskotans, leiðinda, negatíva hnoðið leik eftir leik.

Ég ætla að vona að samanlagt tap gegn Manchester-liðunum upp á 10-0 eða svo verði nóg til að ýta Chris Hughton yfir þröskuldinn. Ég sé ekki annað í kortunum og spái 6-0 fyrir City á laugardaginn.

Júnæted yfirleitt léttir í gegnum tíðina. Dugar það í kvöld?


Bikardagur í dag og mínir menn á leið á Old Trafford í 8 liða úrslitum Capital One Cup. Það er ár og öld síðan NC hafa átt eitthvert athyglisvert bikar-rönn.  Satt best að segja er það harla ólíklegt að það sé að breytast EN, maður veit aldrei.

Eitt er alla vega athyglisvert í þessu samhengi og það er sú staðreynd að í gegnum söguna þá hafa NC haft betur í bikarviðureignum gegn Man.Utd þegar allt er talið.

8 sinnum hafa félögin att kappi og NC hefur vinninginn:         5 – 1 – 2    14 – 10  

Best að hafa þessi orð ekki mikið fleiri um þetta en leita huggunar í þessari tölfræði nú þegar frekar hart er á dalnum og vona það besta.

Moyes og arfleifðin á Old Trafford


Ég tók mig til og gerð svolítið skemmtilegan samanburð. Vissulega eru breyttir tímar og aðstæður allt aðrar í dag en þegar Ferguson tók við á Old Trafford 6.nóv. 1986

En hér kemur samanburðurinn:

Ferguson   8     3 – 3 – 2        10 – 9        12 stig

Moyes        8     3 – 2 – 3        11 – 10      11 stig

Þegar Ferguson labbar inn voru þeir í 19. sæti deildarinnar (22 lið í deild) og einungis með 13 stig úr 13 leikjum. Hann skilaði liðinu í 11. sæti um vorið.

Þess má geta að fyrsta stigið sem Ferguson nælir í á stjóratíð sinni hjá MU var í 0-0 jafntefli á Carrow Road í sínum 2. leik.

Skemmtilega lítill munur þarna á þessum tölum en aðstæðurnar aðrar. MU hafði verið áskrifandi af 4. sætinu 3 tímabil áður en Ferguson tók við en stjóraskiptin komu til vegna afleitrar byrjunar og Atkinson er rekinn.

Sennilega önnur og minni pressa á Ferguson þarna í upphafi en sú pressa sem er á Moyes.

Ég hef sagt það áður og segi það enn;  Það var viðbúið að einhverjir timburmenn gerðu vart við sig eftir stjóratíð sem þá sem um ræðir. Ég tel ennþá að Moyes geti orðið verður stjórastólsins á OT og ríður á að stjórn og stuðningsmenn missi ekki þolinmæðina. Það má ekki gleyma því að það er ekki bara Moyes sem er að taka við nýju liði heldur er liðið að taka við nýjum stjóra, og ég tel, eftir að hafa fylgst með þessu í öll þessi ár, það bara tekur enginn við liði af Ferguson til að gera það að sínu. Það er og verður liðið hans Ferguson.

Ég tek því undir með Brendan Rodgers, stjóra Liverpool, þegar hann segir að Man Utd þurfi 10 nýja leikmenn. En það er ekki vegna þess að leikmennirnir sem eru fyrir séu ekki frambærilegir eða nógu góðir. Það er bara þessi staðreynd; þetta er liðið hans Ferguson, það tikkar hjá Ferguson, hugsar enn eins og Ferguson, hlær og brosir eins og Ferguson, lyktar enn eins og Ferguson en fúnkerar ekki eins og Ferguson vegna þess að Ferguson er farinn.

Þar hafið þið það, góðir hálsar.

Spenna í lofti.


Í mínum huga eru stærstu mistökin sem Worthy (Nigel Worthington) gerði á sínum stjóraferli með Norwich City þau að selja Malky McKay. MacKay hafði verið burðarstólpinn og kletturinn í vörninni þau tímabil sem að lokum leiddu til sigurs í Championship og síðan til úrvalsdeildarsætis haustið 2004. Skarð hans náði Worthy ekki að fylla og eins og kunnugt er var úrvalsdeildar draumurinn skammlífur og liðið féll að vori. Augljóst var af öllu atgervi leikmannsins að þarna fór leiðtogi og það kom mér því ekki á óvart að sjá hann á stjórastóli eftir að spilamennskunni lauk.

Nú er svo komið að Malky er að heimsækja Carrow Road á laugardaginn með lið sitt Cardiff City, og leikurinn gæti haft áhrif á stöðu hans hjá félaginu en ekki síður haft áhrif á stöðu Spörsarans á stjórastóli NC. Fjölmiðlar gera því skóna að atvinnumissir gæti orðið refsingin fyrir tap í þessum leik.

Í öðru tilfellinu finnst mér það fulleðlilegt en í hinu tilfellinu nær óskiljanlegt. Einungis 8 umferðir eru búnar af tímabilinu og þó svo að MacKay og lið hans hafi ekki farið af stað með neinum látum þá er heldur ekki hægt að halda því fram að honum hafi verið boðnar kjöraðstæður að starfa undir af yfirboðurum sínum, sjá hér. Það væri því skandall ef hann fengi ekki lengri tíma til að koma undir sig fótunum í deildinni. 

Í hinu tilfellinu erum við að tala um stjóra sem hefur nú haft bæði tíma og fjármagn til að byggja á tveggja tímabila veru í deildinni. Hann situr í dag uppi með lið sem ekki skorar mark að meðaltali í leik. Lið sem getur nánast ekki unnið leik á útivelli. Lið sem spilar negatívan, leiðinlegan fótbolta og lið sem er dæmt til að tapa ef tilraun er gerð til að breyta út frá leiðinlegum vananum.

Auðvitað vonast ég eftir sigri í hverjum einasta leik. Og ótrúlegt en satt þá væri ekkert sem myndi veita mér meiri ánægju en að sjá Spörsarann ná að snúa hlutunum til betri vegar, því hvað sem segja má um hann sem stjóra þá er þetta , eins og alkunna er, algjör öðlingur.

Ég hugsa að óhætt sé að fullyrða að pressan er mun meiri okkar megin og til lengri tíma litið þá er ég ekki viss um að slef-sigur verði nóg, nema þá til að framlengja veru Spörsarans fram yfir næstu tvo (nánast óhjákvæmilegu) tapleiki, sem ef að líkum lætur, eru tap í bikar gegn Man.Utd og tap í deild gegn Man.City. Ég held að við verðum að sjá glymrandi leik og öruggan sigur auk frambærilegar frammistöðu í Manchester -viðureignunum ef dagar Spörsarans eru ekki taldir fyrir 10. nóvember.

Ég satt best að segja veit ekki hverju ég á að eiga von á. Vinnum við þetta 4 – 1 eða tapast þetta 1 – 4? Hvað sem því líður þá er ég í dag ótrúlega slakur yfir þessu. Líður svolítið eins og ég sé í “Win-Win” stöðu þar sem ég get mögulega fagnað 3 stigum nú eða andað léttar því breytingar séu í vændum. En vissulega er ég að gefa mér forsendurnar að þetta verði svona klippt og skorið, öruggur sigur eða „öruggt“ tap. Það er kannski ekki það sem koma skal.

Að lokum langar mig til að setja hér inn brot úr viðtali við Bill Kenwright stjórnarformann Everton. Ást hans á Norwich City er fölskvalaus. Sjá hér.

Ég verð með puttana á púlsinum á morgun. Ég er rétt búinn að sleppa þeim orðum að ég sé slakur yfir þessu en finn þó fyrir óþreyju og öryggisleysi……það er kannski stutt úr slakanum yfir í panikkið. 

Landsliðið – NCFC – Suarez – Elmander


Það er tímabært að byrja að gíra sig fyrir átök helgarinnar eftir þetta landsleikjahlé. Það er af mörgu að taka en ég ætla að byrja á að afgreiða landsliðið og Lars Lagerbäck.

Ég skal fúslega viðurkenna að ég bjóst ekki við því að sjá landsliðið undir stjórn Lagerbäck í þeirri stöðu sem það er í núna. Taldi hann ekki rétta manninn en fátt sem ég get gert í dag en að viðurkenna að það verð ég að éta ofan í mig. Hvernig sem þetta fer nú í framhaldinu þá er ekki annað hægt að segja en að frábærum árangri hafi verið náð. Ég ætla því að vona að Lagerbäck sé til í að bæta við nokkrum árum og fylgja okkur í gegnum næstu forkeppni.
Að gefnu tilefni vil ég taka það fram að efasemdir mínar um Lagerbäck höfðu ekkert með það að gera að hann var útlendingur (sbr. athugasemd Alla við fyrri pistil).

Þá að mínum mönnum í Norwich. Staðreyndin blasir við. Að loknum 7 umferðum sitja þeir í fallsæti. Stjórinn hefur tapað trausti mínu og þrátt fyrir góða spretti í seinasta leik gegn Chelsea, og kafla sem eru á við það besta sem sést hefur frá liðinu síðan Spörsarinn tók við, þá tapaðist leikurinn 1 – 3 á þriggja mínútna kafla undir lokin. Ég get tekið undir það að þetta hafi verið grimmilega óverðskuldað, eins og einhver fjölmiðillinn hér orðaði það, en mér líður ekkert betur með Spörsarann fyrir vikið.
Hlægilegast var að heyra Morinho eigna sér sigurinn og þakka taktískri snilli sinni og inná skiptingu.  Satt best að segja leit þetta út fyrir að geta dottið hvoru megin sem var þar til á 85. mínútu leiksins. Þá fengu Chelsea sigurinn  á silfurfati og þeir geta einungis þakkað sjaldséðum mistökum Ruddy í markinu fyrir hann.

Næsti leikur er gegn Arsenal á Emirates og ég finn enga ástæðu til bjartsýni. Nú á síðustu vikum hefur fengist nokkur innsýn í hugsunarhátt Spörsarans eins og hann blasir við fyrrum leikmönnum. M.a. fjallaði Morison um það í viðtali hversu erfitt það hafi verið fyrir suma leikmenn félagsins að sætta sig við þær leikaðferðir sem einkennt hafa spilamennsku liðsins undir stjórn Spörsarans. Hin varnarsinnaða, varkára taktík beinlínis að kippa fótunum undan og ánægjunni frá sóknarmönnum og sóknarsinnaðri leikmönnum félagsins. Algjör viðsnúningur frá fyrri stjóra (Lambert) sem naut þess að ögra mönnum og hvetja til sigurs í hverjum leik, sama hver andstæðingurinn var.

Ég nenni ekki einu sinni að setja tölur á þetta. Spörsarinn veit hver krafan er og segist hafa vitað það lengi. Tilburðir í rétta átt í seinasta leik en það var heimaleikur og því væntanlega sama dauðadæmda „töpum ekki“ taktíkin sem þó endar oftast með tapi. Einu breytingarnar sem svo má vænta í taktíkinni eru þær að þegar við erum komnir undir þá fær kannski einn maður í viðbót að fara fram fyrir miðju en annars er þetta spurningin að sleppa með sem minnst tap. Þetta er kannski örlítið ýkt en ekki mikið.

Að lokum vil ég fjalla um tvo menn sem verið hafa í sviðsljósinu síðustu vikur með landsliðum sínum. Annar heitir Johan Elmander og spilar fyrir Norwich og Svíþjóð en  hinn heitir Luis Suarez og allir vita allt um hann. Þessir leikmenn  eiga það sameiginlegt að hafa orðið sér til skammar í landsleikjum að undanförnu.
Ég ætla ekkert að fjölyrða um það hversu óskaplega ég get orðið brjálaður að sjá leikmenn  vísvitandi svindla í leikjum. Annar fyrrnefndra er eins og menn auðvitað vita einn auðvirðilegasti leikmaður sem sést hefur á knattspyrnuvelli síðustu áratugi sem er auðvitað sorglegt þar sem hann er jafnframt einn af betri leikmönnum til að prýða grænan völl þegar sá gállinn er á honum. Hann virðist hins vegar ekki ætla að ná þeim þroska að geta spilað leikinn með sóma og drengskap.

Suarez hefur verið í banni í deildarkeppninni eins og þekkt er, og ekki að ástæðulausu. Hann hefur hins vegar getað spilað fyrir þjóð sína og hefur vegið þungt að undanförnu. Þar hefur það sýnt sig að meintar sál- og geðlækningar Púlara sem leiða eiga Suarez af villu síns vegar eru ekki að skila sér. Suarez er og verður Suarez. Tvisvar hefur legið við borgarstyrjöldum í S-Ameríku (örlítið ýkt en ekki mikið) s.l. mánuði þar sem Suarez hefur með skítlegu eðli sín(mátti til með að rifja upp þennan frasa) unnið þjóð sinni yfirhönd á andstæðinginn. Ekkert af því sem á undan er gengið virðist ætla að hafa áhrif á hann til betrunar. Þegar hann komst í sviðsljós knattspyrnuheimsins í fyrsta skiptið þá var það fyrir brot gegn reglum leiksins. Hann virðist staðráðinn í að „skreyta“ allan sinn feril með skíthælsstimplinum.

Ég spái því að nú þegar Suarez er farinn að spila fyrir Liverpool á ný að það verði ekki komin jól áður en hann verður enn og einu sinni í kastljósi fjölmiðla fyrir umdeilda, svívirðilega hegðun. Og enn á nýji byrji sirkusinn þar sem félag hans fer yfir velsæmismörk í að verja hann og skuldinn skellt á hið vonda FA, breska fjölmiðla, einelti dómara eða hvað það verður sem mönnum dettur í hug.

Spörsarinn fékk að láni 32 ára svía frá Galatasary. Ég var jafn mikið spurningamerki og flestir aðrir yfir þeirri ráðstöfun og enn frekar ef þetta er rætt í samhenginu, Elmander fyrir Hestinn. Elmander hefur átt einn sómasamlegan leik fyrir NC og það var gegn Bury í bikarnum.
Ef ég væri Spörsarinn hefði ég sent Elmander fótgangandi rakleitt til Tyrklands aftur eftir að hafa séð hann henda sér í völlinn fyrir framan andstæðing sinn í landsleik um daginn. Andstæðingurinn átti reyndar ekkert erindi upp við andlitið á Elmander en viðbrögð þess síðarnefnda til skammar.

Að lokum kemur svo ein lítil samantekt af youtube. Já, hann er ekki bara svindlari. Hann er líka ruddi.