Mikilvæg helgi hjá mínum liðum.


Það er óvenju mikilvæg helgi framundan hjá mínum liðum; Norwich, Aberdeen, Sociedad, þessa helgina. Fyrir hinum óbreytta og hlutlausa stuðningsmanni eru væntanlegar viðureignir sjálfsagt ekkert nema ósköp venjulegir leikir án augljóss mikilvægis.

Mínir menn í Norwich eru á heimavelli gegn Reading. Afhverju er það viðureign sem vegur þungt? Jú, Neil Adams er eftir góða byrjun á tímabilinu kominn með allt í skít og ef eitthvað er sokkið dýpra í dýið með hverri viðureign. Tölfræðin talar sínu máli og það má vera ljóst að það er alvöru krísa í gangi og síðustu forvöð að koma málum á hreint.

1 sigur í seinustu 9 leikjum. Það sem hræðilegra er, 1 sigur á heimvelli í seinustu 7 leikjum! Þetta eru skuggalegar tölur ekki síst í ljósi þess að á pappírunum er þarna öflugur hópur leikmanna sem ætti að ráða við verkefnið.

Adams og hans teymi hefur nú þegar tekið breytingum og aðalþjálfari félagsins rekinn og má vera ljóst af sögusögnum að um samstarfsörðugleika var að ræða. Í staðinn er kominn „heim“ til Norwich reynsluboltinn Mike Phelan fyrrum leikmaður NC og sömuleiðis fyrrum aðstoðarstjóri á þeim tíma er Gary Megson var eitt tímabil (´95-´96) í stjórastólnum. Phelan fór frá NC sem leikmaður yfir til Man. Utd. og eftir að hafa verið fyrr nefnt tímabil aðstoðarstjóri  liðu tæp 3 ár og hann var kominn til United á ný. Hann var brátt kominn í teymið með Ferguson og var þar óslitið frá 2001 – 2013, þar af aðstoðarstjóri 5 seinust árin. Þarna er því kominn þungavigtarmaður sem á síðustu misserum hefur verið orðaður við stjórastóla vítt og breitt, og ég sjálfur sett á „sjort-listann“ sem mögulegan kandídata í stólinn hjá NC.

Auðvitað umturnar tilkoma þjálfara engu á 5 dögum en hins vegar gætu slæm úrslit í næsta leik snúið hlutunum á haus. Það er því aukafiðringur fyrir þennan leik. Það skyldi þá ekki vera að Adams hafi ekki einungis ráðið sér þjálfara, heldur einnig ráðið sinn eftirmann sem tekur við viku síðar? Þeir væru þá sannspáir nokkrir fastagestir Boltaspjallsins og gætu glottandi barið sér á brjóst.

Mín afstaða er einföld. Ég vil bara sjá liðið ná sér á strik á ný og mér svona nokkurn veginn skítsama hvað stjórinn heitir. Ég lagði bæði traust og vonir á Adams á sama tíma og ég ítrekaði að þetta væri „gamble“.
Ég vísa til tölfræðinnar hér að ofan. Þetta getur ekki haldið svona áfram þá fer tímabilið í vaskinn fyrir jól. Nú reynir á stjórn félagsins og ef það er rétt sem ég hef heyrt að McNally sé búinn að brýna öxina þá mega stjórnarmeðlimir ekki standa í veginum eins og gerðist á síðasta tímabili.

***

Ég upplifði það í fyrsta skiptið í fyrra að vera í hringiðu sigurvímunnar þar sem 80 þúsund stuðningsmenn Aberdeen voru saman komnir í miðborginni til að fagna bikarmeistartitli. Eftir langvarandi lágdeyðu kom eitthvað og sást eitthvað til liðsins sem gladdi hjörtu stuðningsmanna. Það opinberaðist í leiðinni hversu öflugt félag þetta gæti orðið ef menn einhentu sér í að fylgja þessu eftir.

Aberdeen á auðvitað langt í land með að verða eitt af bestu liðum álfunnar. En, þannig var það nú samt á blómatímanum. Ég sé ekki samskonar blómatíma koma á ný en það væri stórt skref þó ekki væri nema að félagið kæmi sér í þá stöðu að vera reglulega í baráttunni á toppnum í deildinni heima fyrir og þá í kjölfarið reglulega að spila í Evrópukeppni. Meiri kröfur er tæplega hægt að gera að svo komnu máli. En þetta er raunhæft markmið og það er gaman að sjá og heyra að nýjir fjárfestar hyggjast leggja nauðsynleg lóð á vogarskálarnar þannig að þetta megi verða að veruleika.

Það var bikarsigurinn í fyrra sem kveikti þennan neista. Þess vegna er bikarleikurinn gegn Dundee FC svo mikilvægur um helgina. AFC vilja annan bikarsigur til að byggja á. Tveir bikarar í boði og að vinna FA-bikarinn í ár og halda deildarbikarnum frá í fyrra væri draumastaða. Ég mun því sitja spenntur fyrir framan skjáinn í hádeginu á morgun.

***

David Moyes tók við mínum í La Liga fyrir nokkrum dögum og hélt um taumana í fyrsta skiptið þegar markalaust jafntefli náðist gegn Deportivo í tilþrifalitlum leik. Nú er komið að fyrsta heimaleiknum og andstæðingurinn Elche sem á pappírunum alla vega, ætti að gefa raunhæfa kröfu um 3 stig.
Ég hef viðrað þá skoðun mína hversu mikilvægt ég tel fyrir Moyes að ná góðri byrjun. Leikjaniðurröðun er honum tiltölulega hagstæð á næstu vikum og það gæti gefið honum svigrúm og sjálfstraust ef spilast vel úr.
Ef hann lendir í ströggli með að ná utan um verkefnið og snúa gengi liðsins til betri vegar þá gæti þetta orðið stutt ævintýri og ég sé ekki að forsvarsmenn félagsins séu tilbúnir að sitja aðgerðalausir ef stefnir í fall þegar líður á tímabilið. Pönditum ber saman um að þarna sé mannskapur sem ætti að geta skilað liðinu í þægilega stöðu í efri hluta deildarinnar ef allt er með felldu.

Ég spái Moyes sigri í kvöld og blómatíð á komandi mánuðum…. þar með er tímabil Sociedad farið í vaskinn ef mið er tekið af spádómsgáfu minni síðustu mánuði.

Vikustiklurnar – 48. vika


  • Þrátt fyrir ítrekaðar efasemdir ákveðinna fastagesta Boltaspjallsins um Neil Lennon sem knattspyrnustjóra þá hefur hann heldur betur hleypt lífi í Bolton eftir að hann tók við. Það sem meira er og merkilegra, er að Eiður Guðjohnsen er að ganga í endurnýjun lífdaga hjá félaginu og stuðningsmenn halda ekki vatni yfir möguleikanum á að sjá hann á ný í búningi félagsins.
    Eiður var besti maður vallarins í leik varaliðsins í vikunni. Eiður í Championship ? Endilega.
  • Saxafónleikarinn Dion Dublin hefur gefið út jólapötu. „Dion Dong Merrily on High“ er, ef marka má þau miklu viðbrögð sem vefstjóri hefur orðið var við, efst á vinsældalista lesenda Boltaspjallsins.
  • Messi varð um helgina markahæstur í sögu La Liga þegar hann sló met Raul. Messi hefur skorað 253 mörk.
    Í vikunni skoraði hann þrennu í Meistaradeildinni og er nú markahæstur þar með 74 mörk. Besti leikmaður heims að mínum dómi og verður eflaust enn um sinn.
  • Önnur af sömu vígstöðvum. Suarez er kominn á blað í markaskorun fyrir Barcelona í Meistaradeildinni. Óskaplega held ég að Púlarar séu ánægðir með að sjá þetta….eða er það kannski á hinn veginn og þetta einungis til að auka enn frekar á örvæntinguna og ergelsið sem nóg virðist af á meðal aðdáenda Liverpool um þessa mundir?
  • Moyes er mættur á Anoeta. Engin flugeldasýning hjá Sociedad í fyrsta leik undir hans stjórn og drepleiðinlegt 0 – 0 jafntefli gegn Deportivo. En fyrsti heimaleikur er á föstudag gegn Elche og allt nema sigur er óásættanlegt.
    Ég hef haft orð á því á öðrum vettvangi að ég hafi litlar áhyggjur af nánustu framtíð Moyes svo lengi sem hann fari vel af stað. Ef þetta verður ströggl þá gæti pressan yfirbugað hann.
  • Mínir menn í Norwich héldu sinn AGM í vikunni. Undiralda óánægju er meðal stuðningsmanna með gengi liðsins á seinustu vikum og skilaði það sér lítillega inn á fundinn. Stjórnin stendur þó sterk eftir kosningar fundarins og vonandi stendur hún því samhentari þegar kemur að ákvarðantöku þetta tímabilið en hún gerði á því síðasta.
  • Brendan Rodgers segir Steven Gerrard jafn áreiðanlegan og klukkuna. Ég vil bara minna á að klukkur geta seinkað sér og jafnvel stoppað. Tímabært fyrir Rodgers að taka eftir að „Alarm-bjöllurnar“ í Gerrard-klukkunni hringja í hverjum leik núorðið og ekki bara á heila og hálfa tímanum.
  • Ég var inntur eftir því í vikunni hvort ég ætti ekki einhver lið sem ég fylgdi að málum í þýsku og ítölsku deildunum. Á árum áður fylgdist ég með og studdi Ásgeir Sigurvinsson og hafði því alltaf auga á úrslitum Stuttgart. Síðar, og enn þann dag í dag, fletti ég stöku sinnum upp úrslitum hins merkilega félags St. Pauli sem því miður eru að basla við botninn í næst efstu deild.
    Ógeð mitt á ítölsku deildinni er vel skjalfest enda deildin og flest félögin rotin í gegn af spillingu. Er tímabært að ættleiða ítalskan klúbb? Rökstuddar ábendingar vel þegnar.
  • Að lokum vil ég svo bara vekja athygli boltspjelling á því að tímabili Liverpool er formlega lokið og stuðningsmenn farnir að tala um það næsta ef marka má heimildir vefstjóra.
    Við höfum vanist þessu á þessum árstíma sem fylgjumst með úr fjarlægð. Reyndar er síðasta tímabil undantekning og því gott að sjá að allt er þetta í föstum skorðum á ný. Enn betra er að ekki er einungis talað um næsta tímabil heldur líka um næsta stjóra.
    – Sannar sögur sem styðja orðróminn vel þegnar.  Áááákiiii ?

13. umferð Boltaspjallsdeildarinnar


Þá er komið að seinustu umferðinni í fyrri hluta mótsins. Keppni er jöfn og hörð. Fyrirséð er að sviptingar eiga eftir að sjást í töflunni þegar á líður þar sem dreifing heimaleikja / útileikja hefur verið allnokkuð ójöfn milli liða.

13. umferð:

Jay Jay Okocha – Umf. Tjörnes
Síldarsmugan – Forever Young
The Daily Show – Hófí
Shell Athletic – Horn Dauðans
Dandy Dons – Moyesmerized
King Kenny – Hrani Alves
Gazza – FC Craven

Krækja á síðu deildarinnar má finna hér að ofan.

“Fullt hús”, bjartsýni


Boltalífið dettur í sinn eðlilega farveg á ný eftir landsleikjahrinuna og mín lið öll í eldlínunni um helgina.
Það er meiri spenna í loftinu en stundum áður. Adams er undir pressu og þarf að koma NC á beinu brautina ef hann á ekki að missa stólinn. Mínir heimamenn í Aberdeen eru í beinni á Sky Sports á morgun á útivelli gegn Partick Thistle og seinast en ekki síst eru mínir menn í La Liga, Real Sociedad að spila sinn fyrsta leik undir stjórn David Moyes, sömuleiðis í beinni.
Ég hef ekki oft getað fagnað fullu húsi stiga minna liða á einni og sömu helginni. Bjartsýnisköstin sem ég hef tekið á tímabilinu hafa nánast öll komið í bakið á mér. Ég ætla því að taka eitt í viðbót og segi fullum fetum að nú sé komið að því, fullt hús, 9 stig, annars hætti ég að fylgjast með fótbolta og fer að horfa á blak.

Ég verð með puttana alla á öllum púlsunum og ætla að leggja mig fram um að rífa hér kjafta af fullum mætti það sem eftir lifir helgarinnar.

Vikustiklurnar – 47. vika


Hér kemur fyrsta tilraun að vikulegu innslagi á Boltaspjallið. Eins og sjá má þá kalla ég þetta „Vikustiklurnar“ og númerið vísar til þess hvar í árinu við erum stödd.
Þetta verður, eins og nafnið gefur til kynna, stuttar athugasemdir, fréttir, yfirlýsingar og skorinorðar skoðanir sem koma upp í hugann þegar ég skima um í boltheimum.
Ábendingar um stikluskrif vel þegnar.

Vikustiklurnar munu birtast um miðbik (þri-fim) hverrar viku.

  • Mínir menn í NCFC hafa ráðið Mike Phelan fyrrum aðstoðarstjóra Man. Utd sem aðalþjálfara félagsins.
  • Fregnir berast af því, sem í sjálfu sér hefur verið augljóst um nokkra hríð, að Steven Gerrard sé búinn á´ðí, 34ra ára gamall – sjá hér .
    Kenningum um áhugaleysi og leti hefur einnig verið flaggað.
  • Þau undur og stórmerki gerðust fyrr í mánuðinum að Ricky vanWolfswinkel skoraði AFTUR. Hann hefur því skorað ein 3 mörk á tveim árum (eða e-h nálægt því).  Af þessu tilefni lýsti hann því yfir að sögulegt flopp hans hjá Norwich City hafi verið félaginu að kenna. Vissulega var öllum sóknarmönnum vorkunn að spila undir stjórn Spörsarans en óþarfi að detta út úr raunveruleikanum þó menn skori, “aftur”.
  • Það eru einhverjar vikur….eða eru það mánuðir síðan ég heyrði eitthvað um „The Roy Keane effect“ hjá Villa. Kann einhver skýringuna á þessu ? Gæti þetta mögulega haft með að gera rönnið:
    0 – 1 – 6  /   1 – 15  …… ?
  • Í sumum tilfellum hafa það verið sömu menn sem halda á lofti nafni Roy Keane og þeir sem minna reglulega á „snilli“ Steve Bruce á stjórastóli. 1 sigur í seinustu 10 leikjum ! Það fer eitthvað fækkandi fánunum að draga að húni hjá þessum mönnum, sumir hverjir fastagestir hér hehe….
  • Talandi enn frekar um horfnar raddir. Gamall félagi úr hópi Spörsara var í sambandi síðsumars og upplýsti að nú væri komið að því. Hann ætlaði að vera í sambandi aftur í lok nóvember þegar hans menn væri í toppslagnum á sögulegu tímabili umbyltingar í gengi félagsins. Lítið eftir af mánuðinum og ég bíð spenntur. Topp 6 klúbbur, topp 6 !
  • Það olli mér vonbrigðum að heyra af Malky Mckay og heimskulegri hegðun hans á stjórastóli í Cardiff. Nú er hann sestur í nýjan stól hjá Wigan með fyrirvara um refsingar honum til handa frá FA. Eftir farsakenndan blaðamannafund spyr maður sig hvort Dave Welan sé orðinn elliær.
    Slóðaskapur og seinagangur FA að taka á málinu er svo önnur og ekki betri saga.
  • Ég mun sitja óvenju spenntur („moyesmerized“ myndi einhver segja) yfir leik Sociedad gegn Deportivo um næstu helgi. Mínir hamra loks inn sannfærandi 3 stig.
  • Gárungarnir tala um að Daniel Sturridge verði seldur í varahluti í janúarglugganum !
  • Upplífgandi fréttir bárust í vikunni af nýrri fjárfestingu í mínu heimafélagi, Aberdeen FC. Félagið verður skuldlaust um áramót og nýr leikvangur verður tilbúinn innan 3ja ára.
  • Ég er ekki viss um nema að jólakort frá Luis Suarez geti verið á leiðinni. Alla vega hefur umboðsmaður hans á norð-austur horninu óskað eftir heimilisfangi mínu.

12. umferð Boltaspjallsdeildarinnar


Eftir landsleikjahrinu tekur Boltaspjallsdeildin við sér um næstu helgi. Keppni er jöfn og spennandi og krækju á síðu deildarinnar má finna hér að ofan.

The Daily Show – Horn Dauðans
Gazza – Dandy Dons
Forever Young – Umf. Tjörnes
FC Craven – Moyesmerized
King Kenny – Hófí
Síldarsmugan – Jay Jay Okocha FC
Shell Athletic – Hrani Alves

Moyes ráðinn til Sociedad


Ráðning David Moyes til Sociedad var búin að vera í kortunum um tveggja vikna skeið, í það minnsta, þannig að það kom ekki á óvart að heyra staðfestingu á henni í morgun.

Sociedad er “breskara” félag en flest önnur í La Liga svona sögulega séð og þarna er mættur þriðji bretinn á stjórastólinn, hinir tveir; John Toshack og Chris Coleman.
Breskir leikmenn hafa einnig sprangað um á Anoeta og fyrstur útlendinga til að spila fyrir félagið var John Aldridge. Hann var hjá félaginu frá 1989-91 og skoraði 33 mörk í 63 leikjum áður en hann síðan gekk í raðir Liverpool.

Ég hafði orð á því þegar þessi orðrómur komst á kreik að í aðra röndina fagnaði ég þessu því þetta yrði svolítið skemmtilegt og myndi setja Sociedad á kortið og í kastljós fjölmiðla hér heima (í Skotlandi).
Í hina röndina hef ég áhyggjur að því að Moyes sé full breskur í þennan stól og það kæmi mér á óvart ef hann næði að lyfta mínum mönnum á ný í meistaradeildarsæti í La Liga.

Hjartað stendur með honum og væri gaman að sjá hann fá uppreisn æru eftir ævintýrið á Old Trafford. Hausinn segir mér hins vegar að hann sitji ekki út samningstíma sinn (lok tímabils 2016) og verði farinn áður en hann er úti.

Boltaþunglyndi og það brestur í límingunum


Sumar boltahelgarnar eru erfiðari en aðrar, er ég þó orðinn fullsjóaður í bransanum. Það er sem sagt fátt sem gleður hjarta mitt eftir leiki helgarinnar og það er dapurt þegar lítið annað en ófarir annarra eru til að lyfta á manni brúninni.
Hrakfarir Norwich City halda áfram eftir annars góða byrjun á tímabilinu. Í tveimur seinustu leikjum hefur ástandið tekið dýfu niður á lægra þrep en verið hefur hingað til á tímabilinu. Þrátt fyrir að úrslitin væru ekki alltaf hagstæð þá var enginn skortur á baráttu og liðið að skapa mýgrút af færum. Nú virðist þetta hafa gufað upp og ráðaleysi, glundroði og örvænting hafa tekið yfir.

Ef marka má sögusagnir úr innsta hring þá hefur ekki allt gengið á friðsamlegum nótum innan félagsins að undanförnu og nú þegar fréttir berast af brottrekstri Mark Robson, þjálfara félagsins í morgunn, þá má væntanlega álykta sem svo að fótur sé fyrir þeim orðrómi. En, þetta vekur samt  fleiri spurningar en það svarar.

Í mínum huga hefur seinasta vika og frammistaða liðsins í tveimur seinustu leikjum sett afstöðu mína á viðbúnaðarstig. Það er míní-krísa í gangi og jafnvel þó að ég hafi ítrekað fyrir skemmstu tilgangsleysi þess að fara úr límingunum þó úrslitin væru ekki í sammræmi við frammistöðuna þá eru forsendurnar brostnar þegar frammistaðan er farin. Ég er því alveg við það að fara úr límingunum og ef ég á ekki að fara í áhorfsverkfall þá er eins gott að menn kippi þessu í liðinn. Ég hef, öfugt við það sem ég reiknaði með, náð að sjá flesta leiki tímabilsins hingað til. Hins vegar spurning að taka sér frí þegar ánægjan af áhorfinu hverfur fyrir ergelsi og pirringi.

Það er eitt að horfa á NC glopra sigri út úr höndunum á sér á lokamínútunum og geta engu um kennt nema sjálfum sér, eða hitt að horfa á mína heimamenn í Aberdeen missa sinn leik úr sigri yfir í tap, fyrst og fremst fyrir afleita frammistöðu dómara leiksins. Ég get vart gert upp á milli hvort er meira pirrandi !
Frábær viðureign að öðru leyti og mínir menn sterkari aðilinn í leiknum gegn Celtic. Alan Muir verður ekki sakaður um að hafa verið „heimadómari“ í þessum leik, svo mikið er víst.
Jöfnunarmark Celtic átti aldrei að geta staðið þar sem brotið var á leikmanni Aberdeen í aðdraganda marksins. Sigurmarkið kom svo í blálokin úr hornspyrnu sem aldrei var hornspyrna og boltinn fór augljóslega útaf af leikmanni Celtic.

Það var því með hálfum huga sem ég settist yfir enn einn leikinn í gærkvöldi. Ekki nokkur skynsemi sjáanleg í þessari ákvörðun ef horft er til þess að mínir menn í spænsku, Real Soceidad, eru stjóralausir og sátu í fallsæti fyrir leikinn gegn Atletico Madrid. Þetta varð þó hin besta skemmtun, 2–1 heimasigur í hörkuleik.
Ég held að það megi vera ljóst, hvort sem það verður Moyes eða einhver annar sem tekur þarna við stjórastólnum að mannskapurinn er þarna fyrir hendi til að vera á betri stað i töflunni. Vonandi verður það einnig til þess að Alfreð Finnbogason finni sig brátt í betri stöðu og fari að salla inn mörkum.
Þessi sigur var þó harla lítil sárabót eftir áðurnefnd vonbrigði. Kannski bara ágætt að fá landsleikjahléið á þessum tímapunkti. Það má líka alltaf finna sér nýtt áhugamál. Er ekki heimsmeistareinvígi í skák í gangi…

NCFC strögglar – Dandy Dons á beinu brautinni


Ég ætla ekki að fara út í neinar djúpar krufningar á stöðunni hjá mínum mönnum í NCFC en að gefnu tilefni verð ég samt að hafa um þetta nokkur orð.
Ég hafði orð á því í seinasta innleggi mínu að ég væri ennþá sallarólegur en viðurkenndi þó, að áhyggjur væru aðeins farnar að gera vart við sig. Í millitíðinni hafa mínir spilað einn leik og fóru þar algjörlega á rassgatið í frammistöðu sem er alveg á pari við það versta sem ég hef séð á s.l. árum. Vart stóð steinn yfir steini og 4ja marka tap fyllilega verðskuldað jafnvel þó svo að tölfræði leiksins hafi ekki verið svo afleit, heilt yfir.

Ég hafði orð á því fyrir þennan leik á einu spjallborði stuðningsmanna að ef þetta yrði barningur og tap væri í kortunum þá væri kannski tímabært að taka flengingu. Þetta hefur nefnilega hingað til alls ekki verið svo slæm spilamennska og yfirburði NC hafa verið augljósir en án þess að hinn nauðsynlegi fylgifiskur mörkin, hafi fylgt með. Að taka flengingu yrði kannski til þess að menn rönkuðu við sér og finndu takktinn.

Adams er ekki hafinn yfir gagnrýni, því fer fjarri. Ég var í megin dráttum sammála honum í liðsvalinu framan af en þegar lykilmenn fóru að detta út vegna meiðsla þá höfum við stuðningsmenn átt örlítið erfitt með að átta okkur á sumum ákvörðunum hans og helst þeim að spila mönnum út úr þeirra bestu stöðum, í stað þess að nýta sér breidd hópsins, sem er umtalsverð, ekki síst fyrir lið í næst efstu deild. En þarna eru leikmenn sem maður hefur óneitanlega spurt sig um, hvaða tilgangi þeir eigi að að þjóna ef ekki að detta inn í liðið þegar meiðsli koma upp. Þetta hefur, að mínum dómi, svolítið verið eins og að, ef ég fengi gat á stígvélið mitt þá klippti ég bót út úr sama stígvélinu til að setja yfir gatið.

Adams orðaði stöðuna ágætlega í upphafi tímabilsins. Hann sagði að ef þessi mannskapur færi ekki upp þá væri eitthvað að. Það er því augljóst að úrslitin þurfa að taka stakkaskiptum ef þetta tímabil á ekki að fara í vaskinn. Einn sigur í seinustu 7 leikjum er óviðunandi árangur.

Ég veit ekki hvers er að vænta í dag en ég held í vonina um að nú fari þetta að smella aftur. Forest hafa byrjað tímabilið með ágætum og verða eflaust erfiðir heim að sækja. Set samt 1 – 2 á þetta og 3 dýrmæt stig til handa mínum mönnum.

***

Hér á heimaslóðum eru mínir menn í Aberdeen FC smám saman að koma undir sig fótunum eftir að hafa hikkstað lítið eitt á fyrstu vikunum. 7 – 1 – 1 í seinustu 9 leikjum og 3 stig í toppsætið.
Það er stórleikur á morgun hér á Pittodrie gegn Celtic. Kemur sér vel að hann er á beinni á Sky Sports þar sem ég á ekki heimangengt. Upplagt tækifæri til að bæta stöðuna enn frekar og vinna stig á Celtic og önnur lið í toppbaráttunni.

11. umferð Boltaspjallsdeildarinnar


Boltaspjallsdeildin heldur áfram og um næstu helgi stendur upp úr viðureign neðsta og efsta liðs. The Daily Show hefur erfiða 6 leikja útivallar taphrinu á bakinu en fær nú loks heimaleik sem væntanlega eykur líkurnar allnokkuð á hagstæðum úrslitum.

11. umferð 8. nóvember:
Dandy Dons – Forever Young
Horn Dauðans – Jay Jay Okocha FC
King Kenny – FC Craven
Gazza – Hófí
Moyesmerized – Hrani Alves
Umf. Tjörnes – Shell Athletic
The Daily Show – Síldarsmugan