Mikilvæg helgi hjá mínum liðum.


Það er óvenju mikilvæg helgi framundan hjá mínum liðum; Norwich, Aberdeen, Sociedad, þessa helgina. Fyrir hinum óbreytta og hlutlausa stuðningsmanni eru væntanlegar viðureignir sjálfsagt ekkert nema ósköp venjulegir leikir án augljóss mikilvægis.

Mínir menn í Norwich eru á heimavelli gegn Reading. Afhverju er það viðureign sem vegur þungt? Jú, Neil Adams er eftir góða byrjun á tímabilinu kominn með allt í skít og ef eitthvað er sokkið dýpra í dýið með hverri viðureign. Tölfræðin talar sínu máli og það má vera ljóst að það er alvöru krísa í gangi og síðustu forvöð að koma málum á hreint.

1 sigur í seinustu 9 leikjum. Það sem hræðilegra er, 1 sigur á heimvelli í seinustu 7 leikjum! Þetta eru skuggalegar tölur ekki síst í ljósi þess að á pappírunum er þarna öflugur hópur leikmanna sem ætti að ráða við verkefnið.

Adams og hans teymi hefur nú þegar tekið breytingum og aðalþjálfari félagsins rekinn og má vera ljóst af sögusögnum að um samstarfsörðugleika var að ræða. Í staðinn er kominn „heim“ til Norwich reynsluboltinn Mike Phelan fyrrum leikmaður NC og sömuleiðis fyrrum aðstoðarstjóri á þeim tíma er Gary Megson var eitt tímabil (´95-´96) í stjórastólnum. Phelan fór frá NC sem leikmaður yfir til Man. Utd. og eftir að hafa verið fyrr nefnt tímabil aðstoðarstjóri  liðu tæp 3 ár og hann var kominn til United á ný. Hann var brátt kominn í teymið með Ferguson og var þar óslitið frá 2001 – 2013, þar af aðstoðarstjóri 5 seinust árin. Þarna er því kominn þungavigtarmaður sem á síðustu misserum hefur verið orðaður við stjórastóla vítt og breitt, og ég sjálfur sett á „sjort-listann“ sem mögulegan kandídata í stólinn hjá NC.

Auðvitað umturnar tilkoma þjálfara engu á 5 dögum en hins vegar gætu slæm úrslit í næsta leik snúið hlutunum á haus. Það er því aukafiðringur fyrir þennan leik. Það skyldi þá ekki vera að Adams hafi ekki einungis ráðið sér þjálfara, heldur einnig ráðið sinn eftirmann sem tekur við viku síðar? Þeir væru þá sannspáir nokkrir fastagestir Boltaspjallsins og gætu glottandi barið sér á brjóst.

Mín afstaða er einföld. Ég vil bara sjá liðið ná sér á strik á ný og mér svona nokkurn veginn skítsama hvað stjórinn heitir. Ég lagði bæði traust og vonir á Adams á sama tíma og ég ítrekaði að þetta væri „gamble“.
Ég vísa til tölfræðinnar hér að ofan. Þetta getur ekki haldið svona áfram þá fer tímabilið í vaskinn fyrir jól. Nú reynir á stjórn félagsins og ef það er rétt sem ég hef heyrt að McNally sé búinn að brýna öxina þá mega stjórnarmeðlimir ekki standa í veginum eins og gerðist á síðasta tímabili.

***

Ég upplifði það í fyrsta skiptið í fyrra að vera í hringiðu sigurvímunnar þar sem 80 þúsund stuðningsmenn Aberdeen voru saman komnir í miðborginni til að fagna bikarmeistartitli. Eftir langvarandi lágdeyðu kom eitthvað og sást eitthvað til liðsins sem gladdi hjörtu stuðningsmanna. Það opinberaðist í leiðinni hversu öflugt félag þetta gæti orðið ef menn einhentu sér í að fylgja þessu eftir.

Aberdeen á auðvitað langt í land með að verða eitt af bestu liðum álfunnar. En, þannig var það nú samt á blómatímanum. Ég sé ekki samskonar blómatíma koma á ný en það væri stórt skref þó ekki væri nema að félagið kæmi sér í þá stöðu að vera reglulega í baráttunni á toppnum í deildinni heima fyrir og þá í kjölfarið reglulega að spila í Evrópukeppni. Meiri kröfur er tæplega hægt að gera að svo komnu máli. En þetta er raunhæft markmið og það er gaman að sjá og heyra að nýjir fjárfestar hyggjast leggja nauðsynleg lóð á vogarskálarnar þannig að þetta megi verða að veruleika.

Það var bikarsigurinn í fyrra sem kveikti þennan neista. Þess vegna er bikarleikurinn gegn Dundee FC svo mikilvægur um helgina. AFC vilja annan bikarsigur til að byggja á. Tveir bikarar í boði og að vinna FA-bikarinn í ár og halda deildarbikarnum frá í fyrra væri draumastaða. Ég mun því sitja spenntur fyrir framan skjáinn í hádeginu á morgun.

***

David Moyes tók við mínum í La Liga fyrir nokkrum dögum og hélt um taumana í fyrsta skiptið þegar markalaust jafntefli náðist gegn Deportivo í tilþrifalitlum leik. Nú er komið að fyrsta heimaleiknum og andstæðingurinn Elche sem á pappírunum alla vega, ætti að gefa raunhæfa kröfu um 3 stig.
Ég hef viðrað þá skoðun mína hversu mikilvægt ég tel fyrir Moyes að ná góðri byrjun. Leikjaniðurröðun er honum tiltölulega hagstæð á næstu vikum og það gæti gefið honum svigrúm og sjálfstraust ef spilast vel úr.
Ef hann lendir í ströggli með að ná utan um verkefnið og snúa gengi liðsins til betri vegar þá gæti þetta orðið stutt ævintýri og ég sé ekki að forsvarsmenn félagsins séu tilbúnir að sitja aðgerðalausir ef stefnir í fall þegar líður á tímabilið. Pönditum ber saman um að þarna sé mannskapur sem ætti að geta skilað liðinu í þægilega stöðu í efri hluta deildarinnar ef allt er með felldu.

Ég spái Moyes sigri í kvöld og blómatíð á komandi mánuðum…. þar með er tímabil Sociedad farið í vaskinn ef mið er tekið af spádómsgáfu minni síðustu mánuði.

5 thoughts on “Mikilvæg helgi hjá mínum liðum.”

  1. Góð byrjun hjá Sociedad og komnir yfir á 3. mínútu. Alfreð kominn inná fyrir gömlu kempuna Agirretxe á 8. mínútu.
    Upplagt tækifæri til að láta loksins til sín taka og setj´ann inn svona tvisvar, þrisvar 🙂

  2. Flottur sigur hjá Moyes og co í gær.
    Ekki jafn góðar fréttir af mínum heimamönnum sem auluðust út úr bikarnum í dag 1 – 2, gegn liði sem einungis átti 3 marktilraunir allan leikinn.
    Phelan í fyrsta skiptið í búrinu í dag. Hlýtur það ekki að töfra fram góða frammistöðu?

  3. Enn og aftur tapar Norwich. Þetta lið er í frjálsu falli. Ég var löngu búinn að spá því að Adams yrði rekinn í janúar en er farinn að efast um að hann tóri svo lengi…

    1. Við erum bara að horfa á tímabilið fara í vaskinn! Það eina jákvæða er að þrátt fyrir þessa hörmung eru einungis 8 stig í efsta lið.
      Það sem er merkilegast og veldur einna mestum hausverknum er að það virðist vera sama hvernig spilamennskan er úrslitin fylgja ekki með.

      Í gær var þetta aftur til baka til yfirburða í öllu nema marksaskorun en liðið bara ekki að ná að nýta sér það. Svo koma einhver fáránleg einstaklingsmistök sem kosta stigin. Ruddy hefur verið “solid” en átti hörmungarleik í gær.

      Enn frekara áhyggjuefni er að Adams virðist ekki vera að finna réttu blönduna og allt of mikið hringl á hlutunum. Hann er heldur ekki að finna lausn á miðjunni og það er athyglisvert að um leið og Hoolahan meiðist fór bitið úr sóknarleiknum og stigin hættu að tikka inn.

      Varnarleikurinn arfa slakur en þar þrjóskast Adams til að spila mikið sömu mönnunum sem augljóslega mættu alveg fá frí og maður spyr sig hvers vegna hann nýtir ekki breidd hópsins þegar kemur að vörninni; Miquel, Cuellar, Hooiveld, Garrido….?

Leave a comment