SPÁTÍMI ! Látið ljós ykkar skína, góðir félagar.


Það fer vel á því að Aðalsteinn J. Halldórsson ríði á vaðið og hendi hér inn fyrstu spá fyrir tímabilið. Skora á alla málsmetandi sparkspekinga að fylgja hér í kjölfarið, hinir þurfa enga hvatningu hehehe…..

1. Chelsea – Of sterkir. Móri. Nóg sagt. Skíta aftur á sig í CL.
2. Liverpool – Mér lýst vel á sænin. Göttfílíngið ræður hér för líka.
3. ManUtd – LvG ætlaði sér að sigra deildina í ár en það mun hann ekki gera. Varnarvandræði og markmannsvandræði er eitt og sér nóg til að tryggja að svo verði ekki.
4. Arsenal – Arsenalsætið heitir þetta.
5. ManCity – Flopp tímabilsins. Aguero mikið meiddur og hópurinn ekki nægilega sterkur. Sterling floppar.
6. Tottenham – Spurs á kunnulegum slóðum. Levy verður hæstánægður.
7. WBA – Pulis!!!
8. Stoke – Hughes!!!
9. Swansea – Monk!!!
10. Southampton – Liðið heldur áfram að spila yfir getu.
11. WestHam – Slaven mun enda í 11. sæti og aðdáendur munu rifna úr stolti úr ánægju. Big Sam mun ekki skilja hvers vegna og verður ekki einn um það.
12. Crystal palace – Pardusinn siglir þessu þægilega í höfn.
13. Everton – Annað flopp tímabilsins. Moyes vörnin farinn að þynnast og vandræðin hefjast fyrir alvöru.
14. Norwich – Sör Alex kandídat sem stjóra tímabilsins.
15. Newcastle – McLaren verður rekinn í mars en þeir hanga samt uppi.
16. Aston Villa – Sherwood verður rekinn á tímabilinu en rétt eins og Newcastle slefa þeir sér áfram í gegnum fallbaráttuna.
17. Sunderland – Pétur Skarp verður rekinn og Big Sam kemur til bjargar og kemur liðinu upp í 17. sæti á síðustu metrunum.
18. Watford – Þeir munu sjá eftir því að hafa rekið Jóka.
19. Leicester – Fálkinn í sínu síðasta framkvæmdarstjóradjobbi.
20. Bournemouth – Of lítill klúbbur fyrir Úrvalsdeild.

Stutt til jóla


Það nálgast óðfluga að nýtt tímabil hefjist, eins og flestir sjá það, með 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Það er spenna í lofti og menn eru uppteknir við að spá í spilin. Ég mun vissulega ekki láta mitt eftir liggja og mun henda inn formlegri spá í tíma fyrir fyrstu leiki. Jafnframt mun ég enn einu sinni ýta úr vör Tippdeild og verður notast við gamalt og siglt afbrigði leiksins sem spilað var fyrir nokkrum árum við miklar vinsældir. Áhugasamir geta sett sig í samband við vefstjóra og fengið frekari upplýsingar, hafi þeir áhuga á að vera með. Í þessum pikkuðu orðum er útlit fyrir góða þátttöku.

Ég hlakka auðvitað til að herlegheit úrvalsdeildarinnar fylli sjónvarpsskjáinn, ekki síst þar sem mínir menn í Norwich City eru mættir til leiks að nýju í hópi þeirra bestu. Hins vegar er tímabilið að verða mánaðar gamalt hjá mér persónulega og mínir heimamenn í Aberdeen FC haldið mér við efnið og eru að fara að spila sinn 5. leik í forkeppni Evrópudeildarinnar á fimmtudaginn.
Tvennir andstæðingar hafa verið lagðir og nú er það FC Kairat Almaty frá Kazakhstan sem næstir eru í röðinni. Þetta er sýnd veiði en ekki gefin og þarna er á ferðinni eitt af þessum Austur-Evrópsku liðum sem dúkkað hefur upp á síðustu árum eftir að hafa verið fóstrað af fjársterkum aðilum heima fyrir. Við ættum samt alveg að eiga raunhæfan möguleika en þetta stendur væntanlega og fellur með niðurstöðunni úr útileiknum á fimmtudaginn.

Eins og venjulega á þessum árstíma horfi ég stíft til þess hvað er að gerast í undirbúningi minna liða og hingað til er þetta búin að vera vonbrigði og óttalega ergilegt. Frekar lítið að gerast  á tvennum vígstöðvum af þremur.
Á Carrow er ekkert frágengið nema kaupin á Mulumbu frá WBA. Hann kemur á „free“ og verður eflaust góð viðbót í hópinn. Yfirlýst markmið var að lágmarki 4 – 5 nýjir leikmenn inn miðað við þær forsendur að við héldum lykilmönnum.
Mögulega eru kaupin á Írska landsliðsmanninum Robbie Brady loksins að ganga í gegn á næstu klukkutímum og væri það uppörvandi.
En, mér sýnist þó liggja fyrir nú þegar að ef landa á viðbótar mannskap þá er hann ekki að fara að setja mark sitt á liðið í fyrstu umferðum mótsins og allt eins líklegt að menn verði að eltast við að bæta mönnum við allt til loka gluggans. Þetta er, að mínum dómi, alls ekki nægilega góð frammistaða.
Engar stærri sölur hafa átt sér stað hvað sem síðar verður og það er auðvitað bara hið besta mál.

Mínir menn í La Liga og þeirra stjóri, „minn“ maður David Moyes marg gaf það í skyn að hann væri líklegur til að styrkja sitt lið fyrir komandi vertíð og þá jafnvel með leikmönnum úr úrvalsdeildinni. Enn sem komið er bólar ekkert á slíku og einungis spurst af honum í biðröðum eftir hinum eða þessum úrvalsdeildarleikmönnum.
Moyes hefur þó ekki setið auðum höndum alfarið og seinast í gær keypti hann 26 ára sóknarmann, brassan Jonathas de Jesús sem spilaði með Elche á síðasta tímabili og skoraði  þar 14 mörk í 34 leikjum. Áður var hann búinn að landa Portúgalska sóknarmanninum Bruma á lánssamningi frá Galatasary og Mexíkóanum sterka Diego Reyes frá Porto, sömuleiðis á lánssamningi. Þetta gæti því verið að skríða saman hjá Moyes-aranum.

Helstu vonbrigðin eru brotthvarf Alfreðs Finnbogasonar frá félaginu til Grikklands. En satt best að segja kemur það ekki stórkostlega á óvart þar sem hann náði aldrei að fóta sig á Anoeta á síðasta tímabili.

Hér hjá mínum heimamönnum í Aberdeen juða menn hægt og hljótt við að byggja undir. Rétt eins og stuðningsmönnum var sagt þá er ekkert að gerast hratt eða í stórum stökkum en augljóst að menn vinna að því einarðlega að koma félaginu aftur á kortið með öllum þeim ráðum sem í boði eru miðað við aðstæður og fjárhagslega burði.
McInnes hefur styrkt hópinn og gæti átt eftir að bæta enn frekar í hann ekki síst ef svo atvikast að frekari Evrópu-bolti verði á boðstólum þegar líður á haustið.

Það er því bara gaman að vera til í boltheimum og kristaltært að mín lið eru öll á uppleið….eða er það ekki annars?

Sumarið 2015 – Liverpool F.C. eftir Ævar Þór


Ágætu boltspjellingar.
Hér kemur gestapistill frá Ævari Þór Ævarssyni þar sem hann hrærist í vellystingum í Póllandi.
Hafi hann kærar þakkir fyrir og bestu kveðjur frá
Vefstjóra.

Gjörið svo vel:

Jæja, það þarf engin leikskólabörn til að sjá að staða Brendan Rodgers eftir síðasta tímabil var komin út á bjargbrúnina hjá eigendum liðsins og var hann kominn fram af brúninni hjá allmörgum stuðningsmönnum liðsins, og þar með talins þess er þetta skrifar. En ég ætla ekki að fara að draga plásturinn af síðasta seasoni hérna og ætla þess í stað að horfa fram á veginn.

Leikmannakaupin það sem af er

Strax um mán.mótin maí/júní stefndi allt í þá átt að James Milner yrði fenginn til liðsins og fengum við hann “frítt”. Hann í sjálfu sér veikir ekki liðið heldur þvert á móti mun hann styrkja liðið og er ég ánægður með þessi “kaup” félagsins. Ég man eftir honum hjá Leeds, Newcastle og Aston Villa og undanfarin 5 ár hefur hann verið hjá City, og náð á einhvern ótrúlegan hátt að spila bara nokkuð reglulega í kringum allar stórstjörnur City-liðsins. Þannig að ég upplifi Milner svona 44-46 ára en hann er einungis 29 ára gamall. Hann auðvitað er ekkert að fara að koma “í staðinn fyrir Captain Fantastic” en hann eins og áður segir veikir ekki liðið.

Næstur til leiks var Danny Ings fenginn frá fallliði Burnley – Þetta verða að teljast mjög Liverpool-leg kaup. Ungur englendingur sem stóð sig bara fínt fyrir sitt lið fenginn til liðsins. Samningur hans við Burnley rann út, en við þurfum að borga uppeldisbætur til Burnley sem er á bilinu 3-9milljónir punda. Þessar tölur eru eins og sjá má mjög sveigjanlegar en flestir telja að millifærslan sé u.þ.b. 5 milljónir punda. Ég er ansi smeykur um að að þetta sé bara yngri týpan af Rickie Lambert en viðskiptin eru í sjálfu sér ekki léleg og ekki verður hægt að sjá það fyrir sér í framtíðinni að tap verði af þessum viðskiptum.

Adam Bogdan skrifaði svo undir samning við félagið um miðjan júní-mánuð og einnig kemur hann “frítt” frá Bolton. 27 ára rauðhærður ungverji sem varaskeifa fyrir Mignolet er bara fínt. Laumaðist inn á youtbue (ekki segja neinum frá því) og sá þar fínar vörslur frá honum. Svo stóð hann sig mjög vel einmitt gegn okkur í bikarnum á síðasta seasoni. En eins og einn poolarinn orðaði það svo skemmtilega á einu af spjallborðum félagsins og vippa ég því hér yfir á okkar ástkæra – Það er magnað að fá rauðhærðan ungverja, en það þýðir bara að hann hafi upplifað mikið mótlæti á sínum uppvaxtarárum og er því heill.

Joe Gomez ! – Vita sjálfsagt fáir hvern um ræðir þarna, nema ef til vill vefstjóri en þarna er á ferðinni enskur u-landsliðsmaður frá Charlton. Þarna erum við að ræða um fjölhæfan varnarmann sem virðist geta spilað allar stöður í öftustu línu og væri hann skilgreindur Defender (R/L/C) ef við værum í manager. Hann kemur til okkar á 3,5 milljónir punda. Ég aðeins grenslaðist fyrir um Gomez, sem fór í 100.000km æfingarferðina sem félagið fór núna í þetta sumarið og þá kemur í ljós að upplifun Charlton manna er sár, þarna var um að ræða skærustu stjörnu þeirra og á mjög óformlegan hátt töluðu menn um að þetta væri skilgreiningin á “gjöf en ekki gjald”. Það var talað um að Gomez færi samt sem áður að öllum líkindum í lán í championship, og var sérstaklega rætt um Derby County í þeim efnum en eftir að hafa séð til Gomez í tveim leikjum nú með liðinu sagði Rodgers að ekki kæmi til greina að lána hann burt. Hann væri einfaldlega kominn til að berjast um sæti í liðinu. (veit ekki hvort það eru góðar eða slæmar fréttir fyrir hinn almenna stuðingsmann)

Allt í einu, eins og þruma úr heiðskíru, var það tilkynnt að Liverpool hefði fest kaup á Roberto Firmino á rétt tæpar 30 milljónir punda. Þessi viðskipti voru í anda þess sem gerðist á árum áður hjá Liverpool. Ekkert gossip, ekkert ef til vill, kannski, líklega, ábyggilega. Leikmaður einfaldlega kynntur til leiks sem nýr leikmaður liðsins. Þetta eru spennandi kaup og nægir að benda á tölfræði Firmino í Bundesligunni því til stuðnings. Þessi viðskipti fóru að því er virðist meira að segja framhjá ratsjárstöðvum á Stamford Bridge og White Hart Lane og er þá mjög mjög mikið sagt. Þetta gætu, og vonandi verða X-factor viðskipti Liverpool í sumar.

Versta leyndarmál sumarsins var svo opinbert nú um síðustu mán.mót er Nathan Clyne var kynntur til leiks. Það sem kemur helst á óvart þarna er að hann er keyptur frá Southampton. En þetta er auðvitað bara yngri týpan af Glen Johnson sem fékk ekki framlengingu á sinn samning og er kominn til Stoke. Það er svosum lítið við Clyne að bæta nema það að enskir leikmenn eru svo hryllilega hryllilega dýrir ! Þarna er talað um 16 milljónir punda plús einhverjar 2-4 milljónir sem taka mið af árangri Clyne og klúbbsins.

Þó svo að ekki sé búið að staðfesta kaupin á Christian Benteke að þá virðist líklegra að það sé laugardagur á morgun, frekar en þriðjudagur, en að Benteke skrifi undir langtímasamning við Liverpool og yrðu hann þá sjöundu kaup liðsins í þessum glugga og ekki enn kominn versló ! Það hefur lengi legið fyrir að Benteke hafi frá því að lokaflautið gall í vor verið skotmark Rodgers nr.1-2 og 3. Ég er ekki alveg jafn sannfærður um Benteke og finnst í rauninni ótrúlegt að borga 32,5 milljónir punda (sem var auðvitað kaup-klausan í samningi hans við Villa) fyrir leikmann Aston Villa. En ég skal viðurkenna það að ég hef verið að mildast í þeirri afstöðu minni. Hann er með einhver 49 mörk fyrir grútlélegt Aston Villa lið í 100 leikjum. En ég set engu að síður spurningarmerki við þessi kaup.

Svo er við þetta að bæta að Divock Origi leikmaður liðsins frá síðasta sumri er kominn aftur eftir 1 árs lán hjá Lille í frakklandi og hefur Rodgers verið ánægður með Origi í æfingaleikjum liðsins nú í sumar.

Þá er komið að þeim sem farnir eru.

Steven Gerrard – Það vita auðvitað allir að hann er farinn, og óljóst er hvaða áhrif það hefur á liðið og í raun félagið allt saman, enda var hann fyrirliði liðsins (sem er btw mjög merkilegt í englandi) en m.v. frammistöðu hans sem leikmanns á sínu síðasta tímabili að þá verður ekkert mikið vandamál að fylla upp í þá stöðu. Mig að vísu kvíður mest fyrir því hvernig Henderson muni höndla captain-bandið en líklegast þykir mér að það reynist honum um megn. En hann er farinn og það þýðir lítið að grenja í Birni bónda með það.

Ásamt Glen Johnson sem eins og áður hefur komið fram er farinn til Stoke að þá er Brad Jones búinn að yfirgefa félagið og vonandi finnur hann sér lið þar sem hann fær einhvern spilatíma, hann á það skilið. Ég verð alltaf frekar meyr yfir mönnum sem gengið hafa í gegnum erfiðleika, líkt og Jones hefur þurft að gera.

Svo er rahemm $terling farinn.

Fleira var það nú ekki að sinni.

Fyrsti heimaleikurinn


Í dag hef ég verið búsettur hér í Aberdeen í  2 ár. Það hafði staðið til um nokkurra ára skeið að yfirgefa klakann og ýmsir möguleikar í því sambandi skoðaðir. Fyrir rest var þetta val á milli fjögurra landa. Auðvitað horfðum við til þess hvers konar menning biði okkar á hinum endanum og hvernig hægt væri að sinna áhugamálunum. Íþróttadellurnar, fótboltinn og rúgbýið, voru undir smásjánni og þegar kom að fótboltanum þá var fátt um fína drætti. Lítill sem enginn fótbolti í tveimur af fjórum og ekki eins og biði veisla í hinum tveimur.

Ég ætla ekki að segja að það hafi verið fyrir tóma tilviljun að Aberdeen var niðurstaðan en satt best að segja þá réðu allt aðrir þættir en ofantaldir, enda lítil ástæða til að flytja til Aberdeen til að fylgjast með fótbolta eða rugbýi umfram það sem fjölmiðlar bjóða upp á. Titlaleysi, mismikið basl og miðjumoð er sagan þeirra áratuga í grófum dráttum, sem eru liðnir frá blómatímanum undir stjórn Alex Ferguson. Hins vegar, og mér til mikillar ánægju, var flutningur minn á svæðið mikil vítamínsprauta fyrir knattspyrnufélagið. Uppgangur hefur verið mikill og metnaðarfullir eigendur horfa til þess að koma félaginu aftur á kortið. Þetta kom á óvart og ekki hjá því komist að smitast af þeim ferska áhuga sem áberandi hefur verið hér á þessu svæði.

Í dag er fyrsti heimaleikurinn á nýju tímabili og ég er vissulega á leið á völlinn. Andstæðingurinn er KF Shkendija frá Makedóníu sem er, ef marka má fjölmiðla, erfiðasti andstæðingurinn á pappírunum, af þeim sem voru í litla lokapottinum við dráttinn. Útileikurinn er afstaðinn og mínir náðu 1 – 1 jafntefli í Skopje í vikunni sem leið. Það er því allt í járnum.
Ég er að upplifa spenning og eftirvæntingu og finn fyrir því að þetta er farið að skipta mig svolitlu máli allt saman. Félagarnir sem ég þekki lítið nema af vellinum og pöbbinum eru í sambandi og búið að leggja drögin að hittingi fyrir leik. Ég get því reiknað með rauðum faðmlögum og söng í dag.

Ég held að þetta geti orðið barningur í kvöld. Andstæðingurinn er með vel skipulagt lið og hafa verið að styrkja sig á seinustu vikum. Mínir eru varla komnir úr sumarfrí og það var haustbragur á leik þeirra í seinustu viku. Að auki höfum við misst Reynolds, einn okkar besta varnarmann, út í ca. 3 mánuði eftir meiðsli í útileiknum. Ég verð því sáttur svo lengi sem einhvern veginn má berja sig í gegnum þetta.
Spáin er 2 – 1 sigur og Rooney opnar markareikninginn með tvennu.

Enn er lítið að frétta frá Carrow. Eins og venjulega er alltaf eitthvert slúður í gangi en ekki einu sinni er það svo að eitthvað spennandi sé af svoleiðis löguðu í umferð. Meira eitthvað þref um ofvaxinn verðmiðann á Robbie Brady og smávaxinn tilboð minna manna.
Einnig velta menn fyrir sér framtíð Ricky Van Wolfswinkel en veik von var til þess að losna mætti við hann til fyrrverandi í Sporting. Þetta eru alverstu kaup í sögu félagsins og það liggur fyrir að tapið verður talið í milljónum punda þegar upp er staðið. Nýjustu fréttir segja að samningar hafi legið fyrir á milli félaganna en allt hafi strandað á kaupkröfum „kappans“. Því gæti svo farið að við sitjum uppi með þennan ónytjung.
Góðu fréttirnar eru samt að engar fréttir séu af brotthvarfi lykilmanna.

Einhver mætti rifja það upp fyrir mér hvenær David Moyes keypti seinast einhvern leikmann sem eitthvað getur í fótbolta. Ég bíð enn spenntur eftir að fréttir berist frá mínum mönnum í La Liga. Það eina sem heyrst hefur hingað til er að 18 ára kantmaður, David Concha frá Racing Santander hafi bæst í hópinn. Ég hélt að Moyes-arinn ætlaði að fara ljósum logum um úrvalsdeildina í leikmannaleit !