Category Archives: NCFC

Svartur október að baki


Það er orðið allnokkuð síðan ég fór yfir stöðuna hjá mínum mönnum, svona í alvíðasta skilningi þess hverjir „mínir menn“ eru. Martraðar bolta-október er að baki og vonandi eru bjartari tímar framundan. Það var bókstaflega ekkert hjá mínum félagsliðum sem gladdi mig og hvorki fyrr né síðar hef ég upplifað jafn magra samanlagða uppskeru þeirra.

13 leikir, 1 sigur, 1 jafntefli og 11 töp! Markatalan 15 – 31.
Ef ég væri hjátrúarfullur þá væntanlega hefði ég sett þetta í samhengi við að ákveða að gefa upp á bátinn regluleg pistlaskrif, og þá sem refsingu fyrir þá ákvörðun. Hins vegar er því ekki fyrir að fara og um leið og þessi svarti október kvaddi er bjartara yfir.

Stærstu tíðindin eru auðvitað brottrekstur Moyes frá Sociedad. Ég fór ekki fjarri í spádómum mínum um þessa stjóratíð og jafn mikið og ég óskaði þess að hann næði undir sig fótunum í þessu starfi þá náði hann aldrei nokkru flugi.

Eusebio Sacristán er maðurinn sem tekur við. Þessi ráðning kom allnokkuð á óvart. Sacristán á enga reynslu að baki sem stjóri í La Liga á eigin fótum. Eitt tímabil í næst efstu deild með Celta en annars aðstoðarstjóri hjá Barcelona og stjóri Barcelona B (samanlagt í u.þ.b. áratug).
Fyrsti leikur nýs stjóra er heimaleikur á laugardaginn gegn Sevilla.

Mínir heimamenn misstu fótana í lok september eftir bestu byrjun frá upphafi vega. Skyndilega kannaðast maður ekki við þann mannskap sem klæddist búningi félagsins en þarna voru samt sömu piltarnir og maður átti að venjast en fótboltinn horfinn veg allrar veraldar.

Seinasti leikur var sigurleikur og sá fyrsti slíkur í seinustu 7 leikjum. Þetta er því vonandi allt að smella á nýjan leik enda býr mikið í þessum hópi.
Næsti leikur er úti gegn Hamilton á sunnudaginn og það dugar ekkert nema sigur ef halda á í við Celtic (og Hearts) í toppslagnum.

Mínir menn í úrvalsdeildinni átti afleitan októbermánuð og fengu ekki stig auk þess sem þeir féllu úr deildarbikarnum í vítaspyrnukeppni gegn Everton. Á móti kemur, að ef undan er skilin einn leikur þá var spilamennskan fjarri lagi afleit en lánleysið algjört. Það er því mín skoðun og margra pöndita að svo lengi sem menn fari ekki í eitthvað panik þá sé engu að kvíða.

Seinasti leikur var sigurleikur og engin merki um neinskonar örvilnan. Sör Alex hefur brugðist við, eins og hann gaf í skyn að hann myndi gera, eftir stigaleysi úr undanförnum leikjum með því að draga ögn saman seglin í sóknarleiknum og minni áhersla á „possession football“ en meiri áhersla á varnarleikinn.
Það hefur gjarnan verið hlutskipti liðsins í seinustu leikjum að vera meira með boltann, stýra leiknum, langtímum saman, skapa færi en nýtingin ekki góð. Hafa svo þurft að taka kjaftshöggin í skyndisóknum andstæðingsins.
Það er lítil huggun í því að hafa flotta tölfræði eftir leik ef þú hefur tapað.

Næsti leikur er áhugaverður fyrir margt. Útileikur gegn Chelsea og allra augu beinast að Stamford Bridge þar sem staða Móra er orðin ansi þröng. Auðvitað kemur að því að þetta fokdýra lið rétti eitthvað úr kútnum og komi sér í þokkalega stöðu í deildinni. Vonandi verður samt bið á því í bili og ekki yrði það leiðinlegt ef mínir næðu að velgja þeim bláu duglega undir uggum og auka enn frekar á þrýstinginn á brottrekstur en sumir sparkspekingar telja það nánast óumflýjanlegt að ef illa fer fyrir heimamönnum í þessum leik, þá séu dagar Móra taldir.

Helvítis harðindi


Það eru harðinda tímar í boltheimum þessar vikurnar fyrir yðar undirritaðan. Sama hvert litið er af þeim stöðum sem skipta mig máli, gengur allt á afturfótunum.

Hjá mínum heimamönnum er krísa. Reyndar einungis sú fyrsta í tveggja og hálfs árs stjóratíð McInnes. Eftir 7 sigurleiki í röð (9 leiki án taps) þekkir maður ekki liðið fyrir það sama og spilaði þennan rjómafína bolta viku eftir viku.
4 tapleikir í röð, toppsætið farið og það sem verra er, það stendur ekki steinn yfir steini í leik liðsins. Það væri sök sér ef þetta væri svona „venjuleg“ smá dýfa eins og stundum á sér stað, en þetta lítur illa út og engar augljósar ástæður sem hægt er að hengja sig í.

Mínir menn í La Liga eru í skítnum og „landi“ minn David Moyes hlýtur að vera kominn á þröskuldinn hjá eigendum félagsins. 1 sigur í 8 leikjum og einungis markatalan kemur í veg fyrir að liðið sitji í fallsæti. Þetta er búið að vera óskaplega slakt og þó svo að Moyes tali um „progress“ þá er hann ekki sjáanlegur nema niður á við, ef þá hægt er að skilgreina hugtakið með þeim hætti.

Skoska landsliðið klúðraði möguleikum sínum á þátttöku í Euro á næsta ári með tapi í Georgíu í seinasta mánuði. Það lá því fyrir að þetta yrði brekka. Þrátt fyrir ágætis spilamennsku á köflum fór þetta í vaskinn og lánleysið algjört. Með smá heppni hefði mátt fá eitthvað út úr leiknum gegn Þýskalandi, þar sem góð færi fóru í vaskinn í annars fjörugum og skemmtilegum leik.  En örlög liðsins voru ráðin þegar liði lendir undir á 3. mínútu með rangstöðumarki Lewandowski gegn Póllandi. Þetta bara átti ekki að hafast í þetta skiptið.
Liðið hefur hægt og bítandi verið á réttri leið undir stjórn Strachan og ég fagna því að hann skuli gefa kost á sér áfram. Hins vegar er það bara svoleiðis á þessum tímapunkti að Skotland á ekki mannskap til að byggja á mikið betra lið og sérstaklega skortir gæða leikmenn í fremstu víglínu. Liðið er því að klára þessa riðlakeppni nokkur veginn „á sínum stað“ þrátt fyrir að ég sýti lánleysi þess.

Norwich City hafa tapað báðum leikjum sínum í þessum mánuði eftir að hafa spilað 4 leiki í röð án taps. Það má lítið út af bregða svo þetta endi ekki í einhverjum leiðinda botnslag. Tapið gegn Leicester var með ólíkindum og óskiljanlegt hvernig mínir menn fóru af því að fá ekki eitthvað út úr þeirri viðureign. Þeir eru búnir að vera nokkrir þessir hér-um-bil leikirnir í haust þar sem stigin hafa verið um það bil í húsi til þess eins að menn hafa setið eftir svekktir þrátt fyrir ágætis frammistöðu. En þarna einmitt skilur á milli. Keppnin í þessari deild er svo hörð að hér-um-bil er bara ekki nógu gott.

Leikurinn í gær var litaður af tvennu. Varnarleikurinn í molum og Whittaker „had a mare“ eins og þeir orða það hér. Martin einnig úti á þekju og rétt eins og þeir félagarnir úr skoska landsliðinu séu ekki búnir að jafna sig eftir vonbrigði riðlakeppninnar. Þetta virkaði óskaplega auðvelt fyrir Newcastle sem áttu 6 skot á rammann í leiknum og 100% nýtingu. Mínir áttu 18 færi gegn 11 og sömuleiði 6 skot á rammann, 6 skot blokkuð, fleiri horn, meira með boltann. En aftur, einskisverð tölfræði sem skiptir engu í stóra samhenginu.
Alex Neil tekur á sig þetta tap. Menn hafa verið að hrista hausinn yfir liðsvali Sör Alex og skilja ekkert í því afhverju Redmond er ekki í byrjunarliðinu og ef hann er þar afhverju Hoolahan er þar ekki líka. Þeir sem spyrja svona fengu útskýringuna á skilmerkilegan hátt í gær.
Í stöðunni 3 – 2  velur Sör Alex að taka Tettey útaf og setja Hoolahan inn á í staðinn. Tekur sjensinn, liðið undir og hann vonast eftir meira fútti í sóknarleikinn. Á 5 mínútum eftir þessa skiptingu breytist staðan úr 3 – 2 í 5 – 2 !

„“In hindsight that was the wrong decision,” said Neil. “I am always the type of manager who will go with my attacking instinct and try to win a game rather than not concede goals and keeping it tight. I made a decision to take Alex Tettey off because we were losing and we needed a goal at that stage and that made us more vulnerable at the back and we conceded more goals as a result of that.

“It is a bit of a lesson for everyone connected with the club and I include myself in that. Maybe I have to try and suppress that attacking instinct at times but it has served me well since I have started managing teams and there have been occasions since I came to Norwich when it has got us back into games and we have gone on to win in the past. I just need to try and pick the bones out of it. I’ll take responsibility for that, but I think the players know that they’re going to have to take responsibility for the fact that as a group they didn’t defend anywhere near well enough.”

M.ö.o. bakbeinið tekið úr miðjunni í leit að sóknarfærum og áður en mínir menn áttuðu sig höfðu Newcastle labbað í gegn í tvígang.
Redmond og Hoolahan eru báðir frábærir leikmenn en óskaplega erfitt að finna þeim báðum hlutverk á vellinum á sama tíma öðruvísi en að það veiki liðið á öðrum stöðum. En, þetta í rauninni vissi Sör Alex og hefur talað um, en hann ákvað engu að síður að taka sjensinn. Nú geta stuðningsmenn hætt að heimta þetta þar sem sýnishornið af afleiðingunum  er „klessukeyrsla“.

Til að fullkomna harðindin spiluð Skotar leik í 8 liða úrslitum HM í Rugby Union gegn Ástralíu í gær. Já, fótboltinn er ekki eina dellan mín.
Fyrirfram reiknuðu flestir með þægilegum sigri Ástrala en þegar hálf mínúta var eftir af leiktímanum og mínir menn með tveggja stiga forystu fá Ástralar dæmt víti úti á velli sem þeir síðan skora úr til að innsigla eins stigs sigur. Það sem alverst var við þennan dóm er að dómarinn biður ekki TMO (television match official) um staðfestingu á að dómurinn sé réttur þó svo að mikið liggi við og atvikið geti ráðið úrslitum leiksins.
Þegar atvikið er skoðað kemur í ljós að dómurinn er alrangur og engar forsendur fyrir vítinu. Mínir menn voru því rændir sæti í undan úrslitum HM í gær og ég sat eftir, enn einu sinni, „gutted“. Þetta er íþróttaáhugamaðurinn ég í hnotskurn þessa dagana… GUTTED !

Ég hef því ákveðið að finna mér nýtt áhugamál sem er ólíklegt til að valda mér sálarkvölum og þunglyndi.

Bestu kveðjur
Óskar frímerkjasafnari

Halló! (redda því sem redda þarf) og bless.


Vefstjóri hefur verið önnum kafinn upp á síðkastið. Þó svo að hann hafi verið með puttann á púlsi boltheima þá hefur hann ekki haft tíma til að deila vangaveltum sínum með boltspjellingum. Hér með mæti ég í 1. persónu og læt gamminn geysa.

Mínir gul-grænu eru í ágætum málum og ef heldur fram sem horfir þá eru það ófáir sem þurfa að búa sig undir hattaát og niðurlægandi upprifjanir á yfirlýsingum sem menn flögguðu með hæðnisglotti fyrir mót. Þetta gekk svo langt að fjöldamargir spekingar létu svör í líkingu við efirfarandi  fylgja spádómum um fall:  „Norwich without even the hint of a fight…“,  og þetta er ekta.

Seinustu leikir liðsins (3 – 0 sigur gegn West Brom og 2 – 2 jafntefli við WH) hafa verið geysilega góðir en það var þó súrt í broti að þurfa að gefa eftir sigur í seinasta deildarleik á síðustu augnablikum hans. Óþarfa brot á vondum stað og Hamrarnir nýttu gott boð og jöfnuðu leikinn. Glimrandi fótbolti á köflum og auðvelt að vera stoltur Kanarífugl um þessar mundir.

Næsti leikur er heima gegn Leicester. Þetta er nokkurn veginn öruggasti heimasigur næsta seðils. Það er samt hin ótrúlega tölfræði útileikja á þessu ári sem vekur mesta athygli og á 9 mánuðum (og í stjóratíð Sör Alex) er þetta svona: 18 leikir (deild + bikar),  11 – 6 – 1 og markatalan 33 – 18. Ég kvíði því ekki næsta útileik á St. James´s Park í Newcastle og er að skoða hvort ég bregði mér ekki bæjarleið þann 18. n.k.

Á sama tíma og allt virðist sigla lygnan sjó hjá Norwich þá hafa mínir heimamenn í Aberdeen tapað tveimur leikjum í röð. Hins vegar er það samt ekkert til að hafa of stórar áhyggjur af á þessum tímapunkti og augljóslega var annar þessi leikur, deildar-bikarleikur á útivelli gegn Hibernian,  spilaður af svona „mátulegri“ alvöru.
Hins vegar stóð ekki steinn yfir steini í seinasta deildarleik og frammistaðan verðskuldaði ekkert annað en tap. Það hefur einkennt Aberdeen-liðið undir stjórn McInnes að þó svo að það komi slakir leikir inn á milli að þá sitja menn ekki lengi í lægðinni og detta snarlega í gang á ný. Ég mun því fara bjartsýnn á Pittodrie á laugardaginn og á ekki von á öðru en sannfærandi sigri gegn St. Johnstone.

Finnbogason skoraði sigurmark á Emirates í gærkvöld. Moyes getur ekki notað hann hjá Sociedad og því er hann á lánssamningi hjá Olympiakos.
Byrjunin er ekki til að hrópa húrra yfir og, 6 stig í 6 leikjum. Þrjú markalaus jafntefli og einungis 5 mörk skoruð og þau 5 mörk komu í 2 leikjum. Það er ekki hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd að þó svo liðið hangi þetta rétt um miðja deild í augnablikinu þá er þetta algjör geldneytis fótbolti og ekkert hefur breyst frá síðasta tímabili, þetta er hundleiðinlegt heilt yfir.

Þetta er kannski óþolinmæði af minni hálfu og á sama tíma og ég var að hugsa að þetta gæti tæplega gengið mikið lengur þá fletti ég því upp að deildarleikirnir undir stjórn Moyes eru einungis rúmlega 30 frá því að hann tók við. Auðvitað mátti ég vita að svo væri en þetta er bara einmitt málið, hver leikur er oftar en ekki eilífð og kalla á átök að tolla í stólnum. Því er tilfinningin sú að Moyes sé búinn að vera þarna mun lengur en raun ber vitni.
Það er urgur í stuðningsmönnum nú þegar. Það er skammt síðan liðið var að spila í meistaradeildinni og kröfurnar eru miklar. Ég sé ekki fyrir mér, eins og staðan er núna, að Moyes nái  50 deildarleikjum. Það þarf alla vega eitthvað að breytast þannig að raunhæft sé að ætla að svo fari.

Á árum áður gaf ég mér stundum góðan tíma í pistlum mínum  til að fjalla um ýmislegt annað en það sem hjartanu stendur næst. Ég gæti vissulega drepið niður fæti hér og þar og alls staðar, eins og í gamla daga. En augljóslega, og eins og ég hef marg oft bent á. Bloggið er að deyja og bloggumræðan er dauð.
Hér virðist ekki verða líf í tengslum við annað en það sem nauðsynlegt er til að halda lífi í deild hennar hátignar. Áhugi manna er enginn og umræðan er engin.
Þetta er því seinasti pistill minn………í bili að minnsta kosti enda mikið að gera og ég upplifi það ekki þess virði að eyða tíma í þetta lengur.

Helgarpakkinn


Í þessum upphitunarpistli fyrir leiki minna liða um helgina tel ég sjálfgefið að byrja á mínum heimamönnum þar sem glæsileg byrjun þeirra er að vekja athygli.
Ég ætla samt ekkert að fara í smáatriðin og þreyta lesendur, sem eflaust eru flestir misáhugalausir frekar en áhugasamir um gengi Aberdeen FC. Vil einungis benda á að liðið hefur 5 stiga forystu á toppnum og 7 leikir að baki og 7 sigrar. Þetta er besta byrjun félagsins í efstu deild frá upphafi.

Hér koma svo til gamans nokkrar skemmtilegar staðreyndir um félagið:

  • Aberdeen FC is the only team in the world with a 100% win record against Real Madrid.
  • Aberdeen were the first club to have dug-outs. They were introduced by trainer Donald Colman back in the early 1920s to allow Colman to study his players’ footwork, as well as make notes without the rain spoiling them. Everton visited Aberdeen shortly after their introduction and took the idea down to England.
  • Aberdeen were the first club to exit a European competition on penalty kicks, losing to Honved in September 1970. Their European Cup Winners’ Cup tie had ended tied at 4-4, with both sides winning their home games 3-1. The Hungarians progressed after ‘kicks from the penalty-mark’ were used, with the method brought in to replace the toss of a coin.
  • Aberdeen have won two European trophies and they were both secured in 1983. The Cup Winners’ Cup was won with a 2-1 extra time success over Real Madrid in Gothenburg and the European Super Cup was won 2-0 on aggregate over European Cup winners Hamburg later that year.

og að lokum og þarna eru kunnugleg nöfn:

  • When Aberdeen won three Scottish Cups in a row (4-1 over Rangers in 1982, 1-0 over Rangers in 1983 and 2-1 over Celtic in 1984) nine players – Jim Leighton, Doug Rougvie, Neil Simpson, Willie Miller, Alex McLeish, Gordon Strachan, Neale Cooper, Mark McGhee and Eric Black were involved in every game.

Það er útileikur í Edinborg gegn Hearts á sunnudaginn. Ég fylgist með að heiman og spái því að mínir bæti 8. sigrinum við, 1 – 2.

Mínir gul-grænu eru einnig í eldlínunni á sunnudaginn og fara á Anfield. Bölsýni Púlara og jafnvel fleiri aðila er áberandi fyrir þessa viðureign og ótrúlega margir sem gera ráð fyrir að mínir menn geti mögulega tekið eitthvað frá henni.
Það yrði þá eitthvað nýtt ef tekið er mið af sögunni. Norwich hafa í gegnum árin unnið og tekið stig á ótrúlegustu stöðum en gengið gegn Liverpool hefur verið hrein hörmungarsaga svo lengi sem ég man og kæri mig um að rifja upp.

Vissulega vona ég það besta og það er að mörgu leyti ástæða til að vera bjartsýnni núna en oft áður. Hausinn segir sigur Liverpool en hjartað segir mér að ég megi láta mig dreyma.

Leikur Sociedad gegn Espanyol á morgun verður forrétturinn í boltaveislu helgarinnar. Eða ætti ég kannski að kalla þetta fordrykk því líkurnar á að þetta verði þess virði að eyða í það tímanum eru hverfandi. Vondum fordrykk má samt alltaf koma niður þar sem tilgangurinn helgar meðalið en vondur forréttur verðskuldar ekki fórnir.
Kannski skora mínir mark? Það yrði nú aldeilis frétt til næstu landa! Mér finnst þó líklegra miðað við stöðu mála að sala geðlyfja taki kipp í Baksalandi eftir enn eitt 0 – 0 jafnteflið og staða Moyes verði í kastljósinu.

 

Glímuskjálfti


Það er ókyrrð í mér fyrir leiki helgarinnar. Þetta er samt góðkynja ókyrrð og einungis tilkomin af hreinræktuðum spenningi. Það er mikið í húfi, eða þannig er ég að upplifa það. Það er stíft prógrammið fyrir morgundaginn.

Fyrsta vakt er á Pittodrie í hádeginu á morgun og þar skal tekið á meisturum Celtic. Mínir heimamenn hafa byrjað mótið af miklum krafti og eru með fullt hús stiga eftir 5 umferðir. Á síðasta tímabili fór atlaga Aberdeen að titlinum að stærstum hluta í vaskinn vegna lélegs gengis í innbyrðis viðureignum gegn helsta keppinautnum. Allar 4 viðureignirnar töpuðust sem er óvenju slakt miðað við síðustu ár. Þessu verður að kippa í liðinn ef að í alvöru gera á atlögu að titlinum. Þetta er því stórleikur hjá mínum mönnum og spenna í loftinu.
Spáin er 2 – 1 sigur Aberdeen.

Ég upplifi leik Norwich City á Carrow Road ekki síður mikilvægan. Ég hef óbilandi trú á því að liðið spjari sig og breytir það litlu að ekki skyldi fara eins og horft var til með viðskipti í glugganum.

Ég er þó satt best að segja ekki búinn að sjá hvernig þetta reddast og hverjir verða í aðalhlutverkum. Vörnin þarf að taka sig saman í andlitinu. Góðu fréttirnar eru þær að okkar besti varnarmaður er að koma til baka eftir langvarandi meiðsli. Olsson spilaði fyrir Svía í seinustu leikjum, sem kom á óvart þar sem hann skortir alla leikæfingu og hefur ekki verið í liði Norwich þessar fyrstu vikur tímabilsins. Frammistaða hans var svo sem líka á pari við það í þessum tveimur landsleikjum.

Sóknin er einnig eitthvað sem ég á eftir að sjá hvernig spjarar sig. Mbokani verður í leikmannahópi morgundagsins, án vafa, og verður spennandi að sjá hvað hann hefur upp á að bjóða.
Hálfvitinn hann Grabban hefur loksins beðist formlega afsökunar á fíflagangi sínum og nú er að sjá hvort grær um heilt og hann komi til með að skila einhverju að gagni. Verður sömuleiðis áhugavert að sjá hvort Sör Alex lætur hann spila gegn Bournemouth, þar sem hjarta leikmannsins virðist ennþá slá, ef marka má þá stæla sem komu upp í tengslum við hugsanlega sölu hans til baka þangað.

Áhugaverðast af öllu í þessu samhengi er þó stóra spurningin um Kyle Lafferty. Þessi furðufugl og ólíkindatól hefur ekki fundið fæturnar síðan hann kom til Norwich. Helst að hann hafi safnað spjöldum og þurft hafi að taka hann útaf til að bjarga því að óhjákvæmilegt að rautt fari á loft.
Svo fer þessi kappi heim til N-Írlands og spilar þar af þvílíku hjarta að engin botnar í því afhverju hann er ekki stór stjarna út í heimi.

Hvað sem því líður. Ég trúi á sigur minna manna á morgun og enn frekar eftir að hafa séð 2 – 2 spádóm Merson. Þetta verður samt sigur sem hafa þarf fyrir og tölurnar eru 2 – 1.

Mitt lið í La Liga, Real Sociedad, spilar við Betis annað kvöld. Það eina góða sem hægt er að segja um liðið eftir fyrstu tvo leikina er að það er taplaust. En þá er líka ALLT talið.
Tvö 0 – 0 jafntefli og þó svo að 0 – 0 jafntefli séu ekki endilega alltaf leiðinleg þá var engum blöðum um það að fletta í þessum tilvikum. Það mun ráðast verulega af fyrri úrslitum dagsins hvort ég legg það á mig að bæta þessari viðureign ofan á fyrir svefninn. Í versta falli tek ég hana þá með morgunkaffinu á sunnudeginum.
Það hreinlega verður að fara að lifna yfir þessu hjá Moyes. Það situr enginn yfir leikjum liðsins um þessar mundir án þess að skaða sig nema þeir sem eru í andlegu jafnvægi og sterkir eru til sálar og líkama. Verð ég fjallstöðugur í sigurvímunni eða í andlegum hvirfilvindi á barmi örvæntingar? Það má eflaust fylgjast með því hér.

Gluggauppgjör – seinni hálfleikur


Ég hendi hér inn vangveltum sem urðu til þegar mér barst í kommenti, viðbrögð frá Alla, við seinasta pistli mínum. Pistillinn kom inn á glugga-raunir minna manna í NC og þar íjaði ég að fáránleikanum við þetta fyrirkomulag og hvað það getur reynst minni félögunum snúið. Kom berlega í ljós í þetta skiptið og margir sátu eftir með sárt ennið.

Mér fundust þessi viðbrögð svolítið dæmigerð fyrir hugsanagang þeirra sem halda með stóru liðunum og virðast ekki, ótrúlegt en satt, geta séð stóra samhengið og hvað minni félögin eru að berjast við í samanburðinum við elítuna.

Ég ætti kannski að vera fullur samúðar og tauta fyrir munni mér; Aumingja Júnæted að hafa ekki gert betur á markaðinum og endað með því að panik-kaupa ungan frakka á uppsprengdu verði! Eða aumingja Arsenal, að hafa bara keypt Petr Cech! Og með tárin í augnum ætti ég sennilega að vera yfir „raunum“ Móra hjá Chelsea. „Þar eru hlutirnir hreint ekki eins og Móri vildi hafa þá, það efast enginn um.“
En hvað er málið er ekki til fjármagn?  Vissulega getur þetta verið snúið fyrir alla af mismunandi ástæðum. Hins vegar sýnist mér nú samt að allir helstu spekingar séu sammála um það að því meira fjárhagslegt svigrúm þeim mun þægilegra viðureignar. Í rauninni svívirðilegt að ætla að reyna halda öðru fram.
Og hvað hefur það með þessa umræðu að gera að hlutirnir eru úr lagi gegnir hjá Móra. Ertu að reyna að segja mér að ekki sé til peningur? Ef honum finnst að þetta sé ekki eins og það á að vera þá getur hann bara kennt sjálfum sér um, svona til tilbreytingar.

Það sem er augljóst og hefur orðið ljósara með hverju árinu eftir að glugga fyrirkomulagði var tekið upp er hversu glórulaust þetta viðskiptaumhverfi er orðið. Þetta er orðinn gjörbreyttur kúltúr og hefur verið stjórnað af umboðsmönnum og fyritækjum þeirra af stórum hluta. Samtök knattspyrnuheimsins og félögin hafa ekki borið gæfu til þess að standa í vegi fyrir því að þetta fari úr böndunum. Þetta er sóða-kapitalismi af verstu tegund. Og hverjir borga? Og hvernig má það vera að búið er að úthýsa frá völlunum þeim þjóðfélagshópum sem byggðu upp þennan boltakúltúr og kostuðu, fram eftir síðustu öld, velgengni íþróttarinnar og vinsældir?

Það sem meira er og menn hafa verið að vekja athygli á er að þetta er að verða meira og meira eins og merkjavara og farið að lúta lögmálum sem tískuheimurinn (í víðustu merkingu). Merkjavöru-blæti og fölsk huglæg verðmætasköpun. Við þekkjum þetta öll og þau eru í andlitinu á okkur dæmin, daglega.
Hversu oft hefur maður ekki hrist hausinn og spurt sig, hvaðan koma þessar tölur? Hvernig varð þessi verðmiði til? Og hversu oft sér maður svo að akkúrat ekkert verður úr til þess að réttlæta þá upphæð sem skipti um hendur. Magnaðast af öllu er að sjá hvernig verðmætamatið breytist eftir “vörumerkinu”. Og ekki bara verðmætmatið heldur gæðamatið kannski líka.
Ég sá umfjöllun fyrir 1-2 árum sem sýndi þetta í skemmtilegu ljósi og hvað t.d. það er mun líklegra að meðalgóður knattspyrnumaður fái landsleik ef hann flaggar bara rétta „vörumerkinu“, er í rétta liðinu, burt séð frá því hvort viðkomandi lið getur eitthvað á þeim tíma eða ekki.  Á sama tíma eru leikmenn, sem nota bene, menn eru sammála um að eru góðir, ekki að fá tækifæri því þeir eru ekki í einhverju af stóru félögunum. Það er ekki fyrr en það gerist að þá er valið orðið réttlætanlegt.

Vissulega eru réttmætar skýringar líka og færa má rökin fyrir því að það sé eðlilegt að leikmaður auki viðri sitt ef hann stendur sig með einhverju af stóru liðunum í toppslagnum. En þetta nær bara svo langt út fyrir það. Þetta er farið snúast meira um „branding“ en að raunverulegt eða jafnvel raunhæft mat sé um að ræða.
Í ensku úrvalsdeildinni og niður úr í aðrar deildir er misskiptingin mikil. Hún er ekkert frekar að virka hér en annars staðar, brauðmola kenning kapitalismans, þar sem rökin eru að allir hagnist af þeim stærstu og ríkustu, þeim mun stærri og ríkari, þeim mun betra. Brauðmolarnir hrynji af alsnægtaborðunum alla leið niður á botninn. Þeir sem hafa stúderað þetta velta því líka fyrir sér hvernig það megi vera í einni og sömu deildinni að svo gígatískur munur skuli vera á félögunum og aðstöðu þeirra sem raun ber vitni. Að sum félögin hafi fleiri en einn leikmann keyptan svo dýru verði að hann er dýrari en 11 spilandi leikmenn annarra einstakra liða í sömu deild. Að finna megi einstaka leikmenn sem hafa á viku í laun meira en allir spilandi leikmenn annarra félaga, sem ekki er svo vitlaust að setja í annað samhengi, eru 15-20 föld árslaun verkamanna.

Er það furða að menn spyrji sig hvort að þetta sé raunhæft? Er svona geysilegur getumunur? Nei, það sjá allir í hendi sér. Munurinn er allur á einum stað, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Lögmálin sem ráða ferðinni eru mér ekki að skapi og þegar peningar stjórna allri ákvarðanatöku þá endum við í ógöngum.
Ég hlustaði á stuðningsmenn í umræðum á BBC, að mig minnir, þar sem verið var að fjalla um áhugamálið og hvernig þetta hefði þróast í gegnum árin. Fyrrum ársmiðahafar í yfir tvo áratugi, Arsenal-maður og Chelsea-maður voru m.a. gesta. Báðir voru þeir í þeirri stöðu að hafa ekki átt slíkan í næstum áratug en þurfa að sætta sig við að komast rétt stökum sinnum á hverju tímabili.
Chelsea-maðurinn sagðist hafa farið með gömlum félögum sem alltaf fóru saman í denn og þeir hefðu spurt sig af því í seinustu heimsókn hvert stemning væri farin. Hún væri engin í líkingu við það sem hefði verið. Svarið var einfalt. Stemningin fór með megin þorra þeirra stuðningsmanna sem nú sitja við sjónvarpið heima eða pöbbinum og hafa ekki efni á að borga 7-15 þús á leik. (eða 7-20 eins og það er hjá Arsenal).
Það sem þessum stuðningsmönnum fannst svo grátlegast er að á sama tíma og þetta er farið úr böndunum þá er komið „loyalty point“ kerfi, hörðum stuðningsmönnum til hagsbóta.
– Hvar er punktarnir mínir fyrir þau rúmlega 20 ár sem ég fór nánast á hvern einasta leik? – spurði blessaður maðurinn dapur í bragði.

Ég forbýð mér svo mikið sem hið minnsta hvískur og væl þeirra sem tilheyra og styðja liðin sem tilheyra elítunni í úrvalsdeildinni. Þeirra félög eru í forréttindastöðu í samnburði við flest önnur félög landsins. Þeir mega hins vegar óskapast af vild út í getuleysi sinna félaga til að ná mögulegum markmiðum sínum á markaðnum.
En, kannski er þetta bara spurningin um það að hætta að einblína á það að versla í Waitrose og skoða aðra kosti. Þú færð 5 dósir af bökuðum baunum frá Campo Largo fyrir 1 af Heinz, og baunirnar frá Campo Largo eru betri. Það hefur bara ekki spurst út ennþá.

Gluggauppgjör


Þá er hefur félagaskipta glugganum verið skellt aftur. Ef eitthvað eitt hefur vegið þyngra en annað til að auka á peningabrjálæðið í boltanum, hækka leikmannaverð en ekki síst hækka kostnaðinn við að fylgjast með hinni hjartkæru íþrótt þá er það glugginn. Verðbólgan þarna og hækkun á miðaverði er margföld í samanburði við það sem gerist í öðrum geirum viðskiptalífsins. Það er löngu orðið tímabært að endurskoða þetta.

Þetta var óvenju „erfiður“ gluggi hjá mörgum félögum og eðli málsins samkvæmt í umhverfi þar sem „money talks“ þá var þetta erfiðar hjá þeim sem hafa léttari veskin.
Glugginn var gífurleg vonbrigði hjá mínum mönnum í Norwich. Öfugt við það sem við eigum að venjast þá var staðan sú að nokkur listi var fyrir hendi, komið fram á síðustu daga, af viðskiptum sem menn voru að vonast eftir að gætu átt sér stað, bæði inn og út. Oft sér maður þessar fléttur og kapla renna skemmtilega og fyrirhafnarlítið upp. Því var ekki að fagna í gær.

Í fyrsta lagi hefur eftirspurn eftir leikmönnum félagsins verið óvenju lítil og hvort sem mönnum líkar það betur eða ver þá er það að hluta til eitthvað sem taka verður inn í reikninginn áður en farið er í stórkostlega peningaeyðslu. Félagið hefur þó falast eftir stöku leikmönnum í sumar en ekki gengið saman umfram það sem sjá má listanum hér að neðan.
Það var því virkilega sem vonast var eftir að hlutirnir hreyfðust af stað á lokasprettinum. Þegar best lét þá var útstandandi tilboð fyrir á þriðja tug milljóna og á sama tíma voru vangaveltur um stór nöfn út eins og Hooper og Grabban. Nú vantaði ekkert nema að réttu hlutirnir gerðust á réttu stöðunum til að hreyfa öllu af stað.
Þegar upp var staðið gerðist ekkert verulega markvert ef undan er skilin koma Mbokani frá Kiev og óvænt sala Johnson til Derby.
Salan á Johnson gekk vægast sagt misjafnlega í menn og sennilega enn verr vegna þess að lítið kom af nýjum nöfnum.

Þetta eru gífurleg vonbrigði. Það sem er verst, er að vonir stuðningsmanna voru miklar fyrir þennan glugga. Stjórn félagsins mun því klárlega verða fyrir gagnrýni og þrýstingi, réttilega og eða ranglega.
Að mínum dómi var niðurstaðan eftir þessa törn alls ekki nógu góð og mestar áhyggjur hef ég af öftustu línu. Ég hef engar áhyggjur af miðjunni og jafnvel þó að Johnson sé farinn og sáttur við söluna á honum.
Ég er ekki áhyggjulaus þegar kemur að sóknarmönnum. Það er djöfuls vesen að sitja uppi með fífl eins og Grabban og þurfa að fara að stóla á hann. Hooper hefur ekki boðið upp á það sem vonast var eftir en til að sýna honum sanngirni þá hefur hann aldrei fengið almennilegt tækifæri frá því að hann kom til baka eftir seinustu meiðsli.
Hvað nýji maðurinn Mbokani  gerir, er ekki gott að segja. Það eru þó augljós ástæða til að vera bjartsýnn. Hann hefur aðlagast alls staðar þar sem hann hefur farið og það eru meðmæli með leikmanni sem dökkur er á hörund að aðlagast og skila sínu í deild eins og þeirri Úkraínsku þar sem andrúmsloftið er ekki beinlínis vinalegt.

Players in: Robbie Brady (Hull), Graham Dorrans (West Brom), Jake Kean (Blackburn), Youssuf Mulumbu (West Brom), Andre Wisdom (Liverpool, Loan), Dieumerci Mbokani (Dynamo Kiev), Matt Jarvis (West Ham, Loan)

Players out: Mark Bunn (Aston Villa), Sam Kelly (Port Vale), Remi Matthews (Burton, Loan), Cameron McGeehan (Luton), Carlton Morris (Hamilton, Loan), Jacob Murphy (Coventry, Loan), Josh Murphy (MK Dons, Loan), Tony Andreu (Rotherham, Loan), Vadis Odjidja Ofoe (Rotherham, Loan), Bradley Johnson (Derby County).

Helgarrausið


Enn ein boltahelgin framundan og ég held áfram minni eigingjörnu, sjálfmiðuðu umfjöllun um mín lið jafnvel þó að áhugasamir lesendur séu kannski af skornum skammti og íslenskumælandi stuðningsmenn sömu liða fylli vart litla rútu.

Hvað sem því líður þá er það nú svo, að ef eitthvað, þá er áhuginn meiri núna en kannski oft áður og var þó varla á það bætandi. Má vera að þetta sé bara tímabundið ástand og það sljákki í manni þegar líður á tímabilið. En, ef marka má síðasta tímabil þá þykir mér líklegt að ég þurfi bara að lifa með þessu.  Það sem sennilega viðheldur áhuganum í þessum hæðum er sú nálægð við þennan heim sem ég bý nú við. Að fara reglulega á völlinn þar sem þúsundir eru mættar og upplifa stemninguna, læra og syngja söngvana, spjalla við og kynnast skemmtilegum stuðningsmönnum, allt vigtar þetta til að ýta undir þá fótboltaást sem ég hef alið með mér.
Við erum kannski að tala bara um að þetta sé að gerast í tengslum við tiltölulega lítið knattspyrnufélag hér í heimabænum sem á seinustu árum hefur verið að reyna að standa í lappirnar eftir áratuga meðalmennsku. Jú, einmitt, og það er málið. Það þarf ekkert meira til.

Ég hef á þessum stutta tíma vaknað til meiri vitundar um það hvað stuðningsmenn eru mikilvægir og margvíslegir. Úr fjarlægðinni heima á Fróni er það algengt að áhugamennirnir flykkist að stóru og ríku liðunum og „glory hunters“ fara þar í lange baner. Einn og einn tekur svo „fáránlega“ ákvörðun um að sigla á móti straumnum og velur sér, af einhverjum „fáránlegum“ ástæðum eitthvað „fáránlega“ annað. Síðan býr viðkomandi við það að taka við háðsglósum og hroka þeirra sem  farið hafa auðveldu leiðina. Endalaust ertu beðinn um einhverja réttlætingu á þeirri ákvörðun sem þú tókst. Engin spyr; Afhverju Man.Utd eða afhverju Liverpool?
Virðingin fyrir því að hafa ekki sama hjarðeðlið og „allir“ hinir er lítil eða engin og á sama tíma og þú ert í tilfinningalegum rússíbana á leiðinni niður, já eða upp, þá glotta menn yfir sérlundaða sérviskupúkanum.

Það er gaman að ræða þessa hluti við heimamenn. Hér snýst þetta ekkert um það að þurfa að réttlæta eitt né neitt. Á sama tíma og menn „hata“ þetta eða hitt liðið og stuðningsmenn þess þá er hún svo rótgróin viðurkenning á nauðsynlegri tilvist þeirra og menn sjá það í hendi sér hversu innantómt og tilgangslaust þetta væri án þeirra.
Hér í Bretlandi eru milljónir stuðningsmanna sem eyða miklum peningum í að styðja sitt lið. Þeirra lið er kannski „bara“ í neðstu deild. Það er líka mögulega svo að líkurnar á því að liðið fari eittthvað hærra eru hverfandi. Fyrir þessum stuðningsmönnum verður þessi deild þeirra úrvalsdeild og þeirra draumur nær ekkert lengra en að fara upp. Þetta eru ekkert ómerkilegri stuðningsmenn en aðrir og þeirra heimur er í megin dráttum sá sami, nema í smækkaðri mynd. Hins vegar er ekkert hægt að „smækka“ þá upplifun sem þessir stuðningsmenn eiga af sínum sigrum og það er svo merkilegt að þeir virðast hafa alveg jafn gaman að þessu og aðrir stuðningsmenn. Höfum þetta hugfast og sýnum öðrum stuðningsmönnum ávallt tilhlýðilega virðingu á milli þess sem við „hötum“ þá á leikdegi.

Ég ætlaði mér ekkert út í þetta raus og tímabært að fjalla stuttlega um leiki minna liða þessa helgina.
Mínir heimamenn í Aberdeen eiga útileik í dag gegn Partick Thistle. Það er orðin ár og öld síðan þeir hafa byrjað deildarkeppni með fjórum sigrum í röð, hvað þá að þeir verði 5 eins og gæti orðið raunin í dag. Ég fer ekki með Rauða hernum í þessa ferð en sit heima og fylgist með á Red TV.
Ég ætla að spá öruggum 2ja marka sigri og ég sé það í hendi mér að nýr sóknarmaður okkar Josh Parker sem kominn er frá FK Crvena Zvezda (Red Star Belgrade), opni markareikning sinn.

Að þessum sigri loknum sest ég yfir leik Sociedad og Gijon í beinni á Sky. Líkurnar á því að þetta verði skemmtilegt eru álíka miklar eins og þær að ég fari að kjósa Framsóknarflokkinn. Gijon náði markalaus jafntefli heima gegn Real Madrid í fyrstu umferð á sama tíma og mínir gerðu markalaust jafntefli úti gegn Deportivo.
„Ég hefði betur drukkið ofan í þunglyndislyfin“ sagði einn stuðningsmaður um árið þegar hann hafði setið yfir leiðinlegum fótboltaleik. Í versta falli get ég hellt upp á mig ef ég tel andlegri heilsu minni ógnað en ég er reyndar ekki lengur á þunglyndislyfjunum. Hins vegar hef ég stórar áhyggjur af því að Moyes geti valdið öldu þunglyndistilfella í Baskalandi ef ekki lifnar þar yfir boltanum, og meina ég þá fyrst og fremst skemmtanagildinu.
Þetta verður markalaust þar til á 85. mínútu að Illarmendi fagnar heimkomunni með skoti af löngu færi sem dauðliggur inni.

Morgundagurinn býður svo upp á aðra veislu í beinni. Mínir gulu og grænu fara til Southampton og spila þar leik sem Koemann segir að hans menn verði að vinna.
Ég hef engar áhyggjur af mínum mönnum og tel að þeir eigi góðan möguleika á að ná í stig úr þessum leik. Ég yrði sæmilega sáttur við 1 og tel það líklegustu niðurstöðuna.
Annars er staðan óvenjulega magnþrungin fyrir þennan leik og snýst það mun meira um annað en leikinn sjálfan. Róteringar félagsins á markaði eru í kastljósinu og sú staðreynd að lítið virðist ganga hvort sem um er að ræða út eða inn veldur stuðningsmönnum áhyggjum. Þetta gæti orðið óvenju fjörugir dagar sem eftir eru af glugganum, öfugt við það sem við eigum að venjast.

Að lokum má ég svo til með að nefna að ég á mitt lið í utandeildinni ensku. Sumum boltspjellingum er þetta kunnugt og minnast þess þegar ég ritað um það félag pistil á opinberum vettvangi (öðrum en þessum).
Svo skemmtilega vill til að Forest Green Rovers eru með fullt hús stiga eftir 5 umferðir og markatöluna 10 – 1. Kannski er komið að því að fara loksins upp í deildarkeppnina. Það var alla vega yfirlýsing hins stórmerkilega eiganda félagsins fyrir skömmu.
Dale Vince þykir undarlegur sérviskupúki og hugmyndir hans um flesta hluti framúrstefnulegar eða í það minnsta “öðruvísi”.
Enn skemmtilegra í þessu samhengi er að einn af boltspjellingum hefur hrifist af FGR og spurðist af honum í sambandi við Skandinavíska stuðningsmannafélagið.
Ég veit að þessi sami boltspjellingur ber líka leyndar tilfinningar til Norwich City og þó svo að ég viti að það sé langsótt þá er gaman að láta sig dreyma um að einhvern daginn komi hann allur út úr skápnum 🙂

Höfum gaman af því að vera til. Elskum boltann !

Dánarfregnir og jarðarfarir


Fyrsta umferð að baki og sennilega nokkurt spennufall á meðal okkar félaganna sem hvað harðast fylgjumst með. Sama hvað hver segir þá eru liðin vegin og metin sem aldrei fyrr í fyrsta leik og menn hafa tilhneigingu til að draga stórar ályktanir, of stórar ályktanir eins og margoft hefur sýnt sig. Þetta er áberandi núna og er ég þá kannski fyrst og fremst að vísa til viðbragða veðbanka en sveiflur á þeim bænum hafa endurspeglast vel í úrslitum umferðarinnar.

Spádómar pöndita eru okkur Norwich-mönnum í óhag, heldur betur. Þetta er dramtískt og nánast í stíl andlátsfrétta og líkræðna. Á sömu nótum syngur almannarómur jarðarfarasálmana.
Enn frekari stuðning fengu þeir sem bölsýnis megin eru fyrir hönd minna manna, þegar úrslit lágu fyrir á laugardaginn var. Mátti í kjölfarið sjá að NC voru orðnir líklegasti valkostur veðbankanna fyrir fall úr úrvalsdeildinni að vori. Breytti  þar engu um hvernig leikurinn spilaðist og hvað fjölmiðlar á staðnum töldu sig sjá, 1 – 3 var yfirgnæfandi staðreyndin sem menn hengdu sig í, með örfáum undantekningum. Sumir meira að segja gripu haldlausar klisjur og voru greinilega ekki að horfa á leikinn þegar þeir upplýstu að helstu vopn Norwich væru langar sendingar og krossar.

Það var bara annað liði sem reyndi að spila fótbolta, hafði tæp 65% af „possession“ og tæpar 400 sendingar á móti 200 hjá Palace, sem nota bene var það lægsta sem sást í fyrstu umferðinni. Það var sömuleiðis  bara annað liðið sem spilaði „kick & run“ fótbolta í þessum leik og það voru ekki mínir menn. Ætla ég svo ekkert frekar að segja um dómgæsluna í þessum leik sem var kapituli útaf fyrir sig eins og fram hefur komið. Ætla ég þó að bæta hér inn krækju á umfjöllun Ian Wright um atvik úr leiknum.
Ég verð því að segja að mér finnst dómharkan mikil og forsendurnar haldlitlar eins og menn eiga eftir að komast að raun um. Jafnvel þó frekara mótlæti eigi eftir að koma okkar veg þá skulu menn minnast dæmisögunnar um Lasarus.
Ég hef fulla trú á því að við getum náð hagstæðum úrslitum á útivelli um helgina gegn Sunderland og skelli á þetta 1 – 2.

Öll þessi neikvæða umræða er félaginu og stuðningsmönnum erfið. Þetta smitar út frá sér og flökkuliðar (fickle fans) í hópi stuðningsmanna sem hafa litla sjálfstæða hugsum og berast með vindunum eins og þeir blása hverju sinni eitra út frá sér á spjallborðum og sjá dauða og djöful í hverju horni. Helst er það staðan í leikmannamálum sem er mönnum hugleikin. Við erum ekki að ná að losa okkur við leikmenn sem þurfa að fara og okkur gengur illa að laða til okkar þá leikmenn sem sigtaðir hafa verið út.
Sör Alex var hreinn og beinn á blaðamannafundi í morgun þegar þetta var til umræðu. „Some of the players we have gone for do not see us as a good proposition. That is the reality.“  M.ö.(mínum)o. við mætum ekki þeim launa- og samningskröfum sem lagðar eru fram og það þrengir stöðuna að við erum ennþá með of marga „farþega“.  Sör Alex nefndi einnig að áherslan hafi verið á breska (þá væntanlega írar með) leikmenn en þar væru verðmiðarnir komnir út úr kortinu. Hann er samt staðráðinn í, og það er í forgang, að ná að styrkja hópinn áður en glugginn skellur aftur eftir 18 daga. Ég hef fulla trú á að það gerist.

Mínir heimamenn hér í Aberdeen hafa farið vel af stað og eru með fullt hús stiga eftir 2 umferðir. Ég fer ekki á útivöll gegn Motherwell á morgun en vænti þess að garparnir komi heim með 3 stig.

Enn er vika í að La Liga byrji. Moyes var með háleitar hugmyndir fyrir hönd síns liðs í stuttri heimildarmynd sem ég sá á Sky Sports í vor. Ekkert bólar á stórum nöfnum úr úrvalsdeildinni og fátt markvert gerst á seinustu vikum sem ég er þá ekki búinn að nefna hér fyrr. Ég tel gott miðað við stöðu mála ef Moyes nær að hanga með þetta lið um miðja deild. Meira um það síðar.

Þetta er ekki spurningin um að falla eða ekki falla


Það vantar ekkert upp á vangavelturnar um komandi tímabil í úrvalsdeildinni, nú þegar við stöndum á þröskuldinum og horfum fránum augum inn í framtíðina. Það dynja á manni spádómarnir úr öllum áttum, leikir og lærðir láta ljós sitt skína og yðar undirritaður ekki undanskilinn.
Eðli málsins samkvæmt er mér auðvitað hvað mest hugleikið það sem spekingar og aðrir hafa um mína menn í Norwich City að segja fyrir tímabilið. Það er ekki allt á sömu bókina lært en svakalega sem menn hafa, heilt yfir, litla trú á þeim þetta tímabilið. Hver fjölmiðilinn við annan spáir liðinu falli og það sama má sjá og heyra hjá pönditum í lange baner. Það er varla hægt að finna þann (tilfinningalega óháða) mann á byggðu bóli sem gefur möguleikan á einhverju öðru en falli eða fallbaráttu. Þetta er það versta sem ég man eftir undir sömu kringumstæðum.

Hvaða hafa menn svo fyrir sér þegar þetta er vegið og metið?  Í fæstum tilfellum er menn með einhverja greinargóða, rökstudda greiningu. Meira þetta hefðbundna; nýliðar, reynsluleysi, reynsluleysi stjórans og skortur á sterkum leikmönnum til að styrkja hópinn fyrir efstu deild. M.ö.o. lítið að gerast í leikmannakaupum.
Ég er auðvitað tilfinningalega hlaðinn og hlutlægur. Einhverjir væntanlega tilbúnir til að bæta því við að ég sé óraunsær og út úr korti. Hins vegar finnst mér að það megi alveg fær fyrir því rök að þetta þurfi nú ekki endilega að stefna í þennan dauða og djöful sem dreginn er upp út um allar tryssur.

Í fyrsta lagi má alveg benda á það að meint reynsluleysi leikmanna úr úrvalsdeild er, ef að er gáð, ekki jafn mikið og margir vilja halda á lofti. Það er einna helst að sjá að menn séu búnir að gleyma því að  NC eru að koma upp eftir einungis eitt tímabil niðri. Þrjú af seinustu fjórum tímabilum hafa spilast í efstu deild og öflugur kjarni leikmanna hefur verið og er til staðar.

Í öðru lagi horfa menn til Sör Alex, aldur og fyrri störf og það allt saman. Vissulega er engin trygging fyrir því að hlutirnir gangi upp hjá Alex Neil í vetur en það er líka hægt að segja um flesta ef ekki alla stjóra deildarinnar. Það er ekkert 100%.
Einhvers staðar verður að setja líkurnar og ég sé enga ástæðu til að stroka út það sem á undan er gengið í ferli Sör Alex sem stjóra þó svo að hann sé kominn upp um deild.  Það er merkilegt að sjá sömu pöndita (fjölmiðla) sem héldu ekki vatni af hrifningu yfir honum á síðasta tímabili láta eins og þarna sé óskrifað blað, allt í einu.
Málið er mjög einfalt, rétt eins og margtuggið var í tengslum við úrslitaleik umspils í maí. Þarna er ungur stjóri á ferðinni sem hefur á (stuttum) ferli sínum náð ótrúlega góðum árangri. Hann hefur allt sem til þarf og virðist hvoru tveggja hafa „man managment“ og „game managment“. Ég fullyrði því, hvað sem öðru líður, að liðið er í góðum, öflugum höndum.

Í þriðja lagi eru það leikmannamál, kaup og sölur.
Það er ekkert launungarmál að frá því að félagið skilaði sér upp í vor þá hafa þessi mál ekki þróast á þann veg sem vonast var til. Félaginu hefur mistekist við öflun leikmanna og það sem meira er þá gengur illa að losna við leikmenn sem voru „fringe“ leikmenn á síðasta tímabili og nokkuð augljóst að yrðu ekki inni í myndinni ef farið væri upp. Þetta, ekki síst, er það sem stendur öðru fremur í veginum fyrir því að pönditar/fjölmiðlar hafi trú á því að hlutirnir gangi upp á Carrow Road á komandi tímabili.

Ég hef útlistað, bæði vonbrigði og áhyggjur yfir stöðu mála. Nú er hægt að telja það í klukkutímum hvenær fyrsti leikur er flautaður á og það má vera að ekki verði nema 1-2 ný nöfn í byrjunarliðinu. Væri væntanlega hægt að segja 2-3 nema fyrir það að Mulumbu sem keyptur var frá West Brom brotnaði í æfingaleik og verður frá næstu vikurnar.

Menn mega setja í gang skítadreifarana  og setja sig í stellingar þar sem ég ítreka fyrri spádóm minn um 14. sætið. Þar með er ég ekki að segja að ég telji það raunhæft miðað við stöðu mála í augnablikinu en allur mánuðurinn er eftir og enn er unnið hörðum höndum við að finna öfluga leikmenn til að bæta í hópinn. Ég tel að við þurfum í það minnsta 2 varnarmenn og einn sterkan sóknarmann til að ná megi því takmarki að tryggja „þægilegt“ sæti.

Gangrýnisraddir spyrja hverju sætir að svona er komið. Félagið er skuldlaust og fjármagn er fyrir hendi til leikmannakaupa. Stjórinn hefur seinasta orðið en vinnan við öflun leikmanna er í höndum McNally og co.
Eins og bent hefur verið á þá gæti félagið vissulega verið búið að kaupa leikmenn og einhverjir væru væntanlega farnir að „panik-kaupa“ nú þegar. Það hefði verið hægt að gera þetta eins og QPR og allir að rifna úr bjartsýni bara vegna þess hvað búið væri að eyða miklu og kaupa þennan og kaupa hinn. Allir vita hvernig það fór.

Eftirfarandi atriði mega menn svo ræða fram og til baka:
Félagið hefur nokkuð þröngan launaramma sem menn hafa verið tregir til að útvíkka mikið. Standa launakröfur í veginum fyrir komu leikmanna til félagsins? Ekki veit ég það en ef menn ætla að lifa af í þessari deild þá er þetta kannski eitthvað sem kallar á meiri sveigjanleika.
Ef ekki tekst að selja leikmenn til að skapa svigrúm fyrir nýja leikmenn þá verður að skoða að taka bara á sig tap og gefa mönnum fría sölu og borga upp samninga. Það er mun betra en að vera með fullt lið af „farþegum“.
Fyrirhuguð stækkun vallarins hefur verið á bið í nokkur ár og má ekki bíða lengur. Aðferðin við það má samt ekki þrengja svo að félaginu að það sjái sér ekki kleift að keppa á markaðnum. Það hefur ekkert upp á sig að vera montið skuldlaust félag en einungis í næst efstu deild.
M.ö.o. þá liggur það fyrir að félagið getur ekki notað fjárhagslega stöðu sína sem afsökun fyrir því ef menn reynast ekki nægilega vel undir búnir fyrir tímabilið í efstu deild. Það má því ekki misfarast á þeim tíma sem er til stefnu að ná þeim takmörkunum sem menn settu sér í mannakaupum í vor.

Að lokum. Hér hafa menn þetta svart á hvítu, greinargóða úttekt sem ég stend og fell með. Í mínum huga var þetta og er þetta, ekki spurningin um að falla eða ekki falla. Miklu frekar spurningin um „þægilegt“ sæti eða sleppa fyrir horn. Ég trúi því að við sleppum fyrir horn jafnvel þó akkúrat ekkert gerist það sem eftir gluggans.

Í kvöld er ég á Pittodrie og vonast til að sjá mína menn landa sigri á Kairat Almaty. Verðlaunin gætu orðið stórt nafn í næstu umferð sem jafnframt er orðið umspil um þátttöku í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.
Ég mun hita upp með Rauða hernum og hyggst vera rosalega „dandy don“ að leik loknum.