Boltaþunglyndi og það brestur í límingunum


Sumar boltahelgarnar eru erfiðari en aðrar, er ég þó orðinn fullsjóaður í bransanum. Það er sem sagt fátt sem gleður hjarta mitt eftir leiki helgarinnar og það er dapurt þegar lítið annað en ófarir annarra eru til að lyfta á manni brúninni.
Hrakfarir Norwich City halda áfram eftir annars góða byrjun á tímabilinu. Í tveimur seinustu leikjum hefur ástandið tekið dýfu niður á lægra þrep en verið hefur hingað til á tímabilinu. Þrátt fyrir að úrslitin væru ekki alltaf hagstæð þá var enginn skortur á baráttu og liðið að skapa mýgrút af færum. Nú virðist þetta hafa gufað upp og ráðaleysi, glundroði og örvænting hafa tekið yfir.

Ef marka má sögusagnir úr innsta hring þá hefur ekki allt gengið á friðsamlegum nótum innan félagsins að undanförnu og nú þegar fréttir berast af brottrekstri Mark Robson, þjálfara félagsins í morgunn, þá má væntanlega álykta sem svo að fótur sé fyrir þeim orðrómi. En, þetta vekur samt  fleiri spurningar en það svarar.

Í mínum huga hefur seinasta vika og frammistaða liðsins í tveimur seinustu leikjum sett afstöðu mína á viðbúnaðarstig. Það er míní-krísa í gangi og jafnvel þó að ég hafi ítrekað fyrir skemmstu tilgangsleysi þess að fara úr límingunum þó úrslitin væru ekki í sammræmi við frammistöðuna þá eru forsendurnar brostnar þegar frammistaðan er farin. Ég er því alveg við það að fara úr límingunum og ef ég á ekki að fara í áhorfsverkfall þá er eins gott að menn kippi þessu í liðinn. Ég hef, öfugt við það sem ég reiknaði með, náð að sjá flesta leiki tímabilsins hingað til. Hins vegar spurning að taka sér frí þegar ánægjan af áhorfinu hverfur fyrir ergelsi og pirringi.

Það er eitt að horfa á NC glopra sigri út úr höndunum á sér á lokamínútunum og geta engu um kennt nema sjálfum sér, eða hitt að horfa á mína heimamenn í Aberdeen missa sinn leik úr sigri yfir í tap, fyrst og fremst fyrir afleita frammistöðu dómara leiksins. Ég get vart gert upp á milli hvort er meira pirrandi !
Frábær viðureign að öðru leyti og mínir menn sterkari aðilinn í leiknum gegn Celtic. Alan Muir verður ekki sakaður um að hafa verið „heimadómari“ í þessum leik, svo mikið er víst.
Jöfnunarmark Celtic átti aldrei að geta staðið þar sem brotið var á leikmanni Aberdeen í aðdraganda marksins. Sigurmarkið kom svo í blálokin úr hornspyrnu sem aldrei var hornspyrna og boltinn fór augljóslega útaf af leikmanni Celtic.

Það var því með hálfum huga sem ég settist yfir enn einn leikinn í gærkvöldi. Ekki nokkur skynsemi sjáanleg í þessari ákvörðun ef horft er til þess að mínir menn í spænsku, Real Soceidad, eru stjóralausir og sátu í fallsæti fyrir leikinn gegn Atletico Madrid. Þetta varð þó hin besta skemmtun, 2–1 heimasigur í hörkuleik.
Ég held að það megi vera ljóst, hvort sem það verður Moyes eða einhver annar sem tekur þarna við stjórastólnum að mannskapurinn er þarna fyrir hendi til að vera á betri stað i töflunni. Vonandi verður það einnig til þess að Alfreð Finnbogason finni sig brátt í betri stöðu og fari að salla inn mörkum.
Þessi sigur var þó harla lítil sárabót eftir áðurnefnd vonbrigði. Kannski bara ágætt að fá landsleikjahléið á þessum tímapunkti. Það má líka alltaf finna sér nýtt áhugamál. Er ekki heimsmeistareinvígi í skák í gangi…

4 thoughts on “Boltaþunglyndi og það brestur í límingunum”

  1. Ég er skíthræddur við þennan brottrekstur Robsons. Ég hræðist að stjórn Norwich telji sig vera komin með allt á þurrrt núna – búið að reka þjálfara og það sé nóg í bili. Sjá hvað setur og athuga hvort Adams sé ekki eftir allt saman sá Messías sem til stóð. Var það ekki allan tíma stóri, vondi Robson sem á alla sök á þessum herfilegu úrslitum.

    Þetta minnir mig á stöðuna á síðasta tímabili. Allir vissu að Spursarinn ætti ekkert erindi í stjórastól Norwich um áramót í síðasta lagi – nema stjórn Norwich, já og Paul Merson. En nei! Það var þráast við, vonast eftir einhverju óútskýrðu kraftaverki þangað til það var orðið of seint.

    Stefnan var sett á að fara beint upp. Það mun ekki gerast með Adams. Það er ljóst. Ef stjórn Norwich er sátt við það, þá er þetta bara allt í lagi er það ekki? Adams mun nú fjandakornið ekki falla. En ef stjón Norwich ætlar að skaffa vefstjóra Premíufótbolta á nýjan leik á næsta tímaibili – þá verður Adams að hverfa ekki seinna en í þessari viku.

    1. Mér finnst það nú ansi langsótt að ætla að stjórn félagsins finnist hún bara þurfa að gera eitthvað “í bili” og sé hún þá komin á þurrt.
      Algjörlega, og burt séð frá því hvort Adams er “Messías” eða ekki þá hlýtur að vera að menn sjái einhverja ástæðu fyrir brottrekstrinum.
      Ef marka má mínar heimildir þá var þessi ákvörðun tekin eftir fund með leikmönnum. Sel það ekki dýrara en ég keypti það.

      Jafn ósáttur og ég var með viðbrögð Adams eftir seinasta leik og frammistöðu liðsins í tveimur seinustu leikjum þá sýnist mér að hugsandi stuðningsmenn geti alveg fallist á að spilamennskan var heilt yfir góð fram að þeim leikjum, þó mönnum væru mislagðir fætur upp við markið. Og, 6 stigum frá toppsætinu á þessum tímapunkti þýðir ekki að tímabilið sé búið.

      Hengdu menn bakara fyrir smið? Eða átti að hengja báða?
      Tíminn leiðir það í ljós. En ég hef enga þolinmæði gagnvart einhverju ströggli.
      Ef 2 næstu leikir (báðir heima) sýna eitthvað annað en að menn séu komnir á beinu brautina á ný þá vona ég svo sannarlega að stjórnin sé tilbúin með plan B:

      Það verður að sama skapi athyglisvert að sjá hvern menn ráða með Adams í stað Robson ? Mér skilst að búið sé að finna manninn !

Leave a comment