Boltaspjalls leiðari – NCFC


Það er alltaf jafn góð tilfinningin síðsumars þegar boltinn fer að rúlla í ensku deildunum. Enn frekar eykur það á vellíðan að NC skuli byrja tímabilið í deild hinna bestu. Nú er það þriðja tímabilið í röð og sé ekki betur en full ástæða sé til að ætla að þau eigi eftir að verða mörg fleiri.

Það er einstaklega ljúft að renna yfir Boltaspjallsárin og rifja upp ýmsa þá umræðu og mörg þau ummæli sem fallið hafa. Öflugur kjarni einstaklinga hefur átt hér athvarf og umræður verið fjörugar og á köflum harðar. 

Eðli málsins samkvæmt hefur umræða um NC oftar en ekki verið í brennidepli. Hefur þar iðulega verið saumað hart að vefstjóra enda auðveldur skotspónn þar sem gengi félagsins á vellinum hefur ekki alltaf verið sem skyldi. Af nautnafullri ákefð þjörmuðu fastagestir spjallsins að vefstjóra, sumir harðar en aðrir, svo vellíðunnar stunurnar bergmáluðu í Víknafjöllunum. Þarna þöndu menn kassann yfirlýsingaglaðir, með langtíma hrakspár til handa Norwich City FC.

Hver stendur svo uppi með pálmann í höndunum? Hverjir eru ennþá að skíta hattaafgöngum, já eða hrútagærum?……..eða ætti ég að segja Hrútagærum? Hahaha….!


Ég velti því svo fyrir mér, í tilraun minni til að setja hlutina í samhengi, hvort það sé svo raunverulega tilfellið að minnkandi áhugi manna á Boltaspjallinu sé í beinu sambandi við gott gengi NCFC. Það er nefnilega þannig að þeir sem harðastir og af mestri innlifun tóku hér slaginn á móti (og stundum með) vefstjóra, hafa smátt og smátt horfið, eða í það minnsta takmarkað komur sínar hér svo verulega að rétt getur talist í mýflugumynd.

Getur það verið, að sú staðreynd að ekki er lengur hægt að sparka í vefstjórann liggjandi, þar sem hann aumur, marinn og blár tekur slaginn í „annari“ eða „þriðju“ deild, hefur orðið til þess að jafnvel hörðustu  boltspjellingar hafa farið undan í flæmingi.

Ég skora nú á þá sem farið hafa í felur að skríða til baka úr híðum sínum. Menn verða bara að gíra sig upp á nýtt, jafna sig og horfast í augu við það að hafa haft rangt fyrir sér um NCFC og að nú verði að taka umræðuna á jafnræðisgrunni. Beini ég sérstaklega orðum mínum til þessa ágæta vinar míns og félaga sem barmaði sér hvað hæst yfir meintum eineltistilburðum mínum gagnvart Luis Suarez og lét sig hverfa algjörlega af þessum vettvangi um hríð. 

NCFC

Mínir menn hafa ekki setið auðum höndum síðan í vor og ætla ég rétt að renna yfir mitt álit á því sem gerst hefur í leikmannamálum. Þetta verður einungis í fáum orðum, klippt og skorið. 

Í fyrsta lagi vil ég fagna því að félagið hefur ekki þurft að selja neina af sínum sterkustu leikmönnum og staðið af sér ágang og hnus annrra félaga í kringum okkar menn.

 Í annan stað (málfarsáhrif í boði Jóns Baldivins Hanibalssonar), vil ég lýsa yfir ánægju minni með öll kaup sumarsins. Lýsi samt efasemdum mínum gagnvart þessum seinasta gjörningi að taka Elmander að láni frá Galatasary, út tímabilið. Það eina góða sem ég sé við þá ráðstöfun er að hann skuli ekki hafa verið keyptur, orðinn 32. ára gamall. 

Allar „sölurnar“ 14 (u.þ.b. held ég) get ég skrifað upp á nema eina. Paul Lambert veit hvað býr í hinum unga markverði Jed Steer.
Hesturinn seldur fyrir 4 millj. og það tel ég góða sölu fyrir leikmann sem farið er halla undan hjá. Hann getur átt eftir að spjara sig eitthvað áfram en þetta var rétt ákvörðun.
 

Ég er ekki fyllilega öruggur með Hughton á stjórastólnum. Augljóslega má draga þær ályktanir út frá leikmannakaupum að meiri áhersla verði á sóknarleik. Ég er bara ekki viss um nema að stjórann bresti kjarkinn þegar á hólminn er komið. Hann hefur svo sem aldrei haft orð á sér fyrir að vera mikill sóknarboltamaður og virðist vera varkár og varnarsinnaður að upplagi. Alla vega er það algjör krafa að minni hálfu að í vetur verði skemmtilegri fótbolti á boðstólum en það sem boðið var upp á í fyrra.
Jafn sáttur og ég var fyrir rest með 11. sætið þá má ekki gleyma því að liðið var í fallhættu þegar kom að 3. seinustu umferð.
 

Í þeirri von að Sjéntilmaðurinn finni réttu blönduna og upplifi sig sæmilega afslappaðan með að hleypa mönnum fram fyrir miðju, spái ég mínum mönnum 9. sætinu.

3 thoughts on “Boltaspjalls leiðari – NCFC”

  1. Ég veit ekki hvort að það sé eitthvað beint til mín sérstaklega, en það er ekkert erfitt að horfast í augu við það að Norwich sé á “jafnræðisgrunni” á við önnur lið sem menn hér styðja. Eitt af smærri liðum úrvalsdeildarinnar sem virðist hafa fá sameiginleg takmörk með rótgrónum úrvalsdeildarklúbbum.

    Jákvæð kaup hjá CH í sumar enda mikil þörf á. Sá töluvert af Norwich leikjum í fyrra en mikið afskaplega var þetta leiðinlegt lið eftir áramót. Jeminn eini! Það er vonandi að menn komi graðari til leiks í ár.

    Að mínum mönnum; þá hef ég ekkert mikið að óttast þannig lagað. Rooney bullið er náttúrulega sérstaklega óþolandi og þá þegar horft er í það að hann vildi fara fyrir tveimur árum því liðið væri ekki nógu metnaðarfullt á markaðnum og eins og skúbbið segir núna, vill fara því hann er ekki lengur stjarnan. En maður trúir ekki öllu sem maður les á meðan maður sér manninn gefa sig allan í leikinn eins og hann gerði þegar hann var inn á gegn Swansea. Hann má alveg sleppa því að fagna ef hann leggur upp tvö mörk í leik! Verður spennandi að fylgjast með David Moyes í enn stærri skóm en áður og mín krafa er að liðið verði í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn.

    1. Frábært að sjá Ingvar hér með fyrstu mönnum.
      Nei, Ingvar. Þú varst nú fjarri lagi efstur í huga mér enda ekki verið vígður í innsta hring NW.
      Já, og sammála hverju orði um skemmtanhald í boði NC á s.l. tímabili.Gagnrýndi það án afláts allt tímabilið.
      Man.Utd verða meistarar með eða án Rooney. Ef ég hef rangt fyrir mér í því þá er það einungis fyrir það að þeir tapa þessu á markamun eða 1 stigi en ekki fyrir það að Moyesarinn þurfi aðlögunartíma.

  2. Best að maður kvitti fyrir lesninguna, þó seint sé. Hef þó þá afsökun að hafa verið á Bretlandseyjum og ekki í kallfæri við tölvu nema í mýflugumynd. Hvað varðar Norwich þá má liðið vera stolt af þeim árangri sem hefur náðst allt frá því að Gunn var rekinn í kjölfar niðurlægjandi 1-7 taps gegn Colchester í C deildinni. Maður hefur á tilfinningunni að liðið sé að reka “nýliðastimpilinn” af sér og sé að stefna smáum skrefum í það að verða fastagestur í deild þeirra bestu. Byrjunin á þessu tímabili er þó ekki eins og stefnt var að, 1 stig gegn Everton var ásættanlegt en í kjölfarið fylgdi 1-0 tap gegn lærisveinum Steve Bruce í Hull. Það er þó alltaf svo að þegar eru margir nýjir leikmenn þarf smátíma til að slípa liðið saman. Ég er ekki í vafa um að Norwich verður um miðja deild þetta árið.

Leave a comment