Svartur október að baki


Það er orðið allnokkuð síðan ég fór yfir stöðuna hjá mínum mönnum, svona í alvíðasta skilningi þess hverjir „mínir menn“ eru. Martraðar bolta-október er að baki og vonandi eru bjartari tímar framundan. Það var bókstaflega ekkert hjá mínum félagsliðum sem gladdi mig og hvorki fyrr né síðar hef ég upplifað jafn magra samanlagða uppskeru þeirra.

13 leikir, 1 sigur, 1 jafntefli og 11 töp! Markatalan 15 – 31.
Ef ég væri hjátrúarfullur þá væntanlega hefði ég sett þetta í samhengi við að ákveða að gefa upp á bátinn regluleg pistlaskrif, og þá sem refsingu fyrir þá ákvörðun. Hins vegar er því ekki fyrir að fara og um leið og þessi svarti október kvaddi er bjartara yfir.

Stærstu tíðindin eru auðvitað brottrekstur Moyes frá Sociedad. Ég fór ekki fjarri í spádómum mínum um þessa stjóratíð og jafn mikið og ég óskaði þess að hann næði undir sig fótunum í þessu starfi þá náði hann aldrei nokkru flugi.

Eusebio Sacristán er maðurinn sem tekur við. Þessi ráðning kom allnokkuð á óvart. Sacristán á enga reynslu að baki sem stjóri í La Liga á eigin fótum. Eitt tímabil í næst efstu deild með Celta en annars aðstoðarstjóri hjá Barcelona og stjóri Barcelona B (samanlagt í u.þ.b. áratug).
Fyrsti leikur nýs stjóra er heimaleikur á laugardaginn gegn Sevilla.

Mínir heimamenn misstu fótana í lok september eftir bestu byrjun frá upphafi vega. Skyndilega kannaðast maður ekki við þann mannskap sem klæddist búningi félagsins en þarna voru samt sömu piltarnir og maður átti að venjast en fótboltinn horfinn veg allrar veraldar.

Seinasti leikur var sigurleikur og sá fyrsti slíkur í seinustu 7 leikjum. Þetta er því vonandi allt að smella á nýjan leik enda býr mikið í þessum hópi.
Næsti leikur er úti gegn Hamilton á sunnudaginn og það dugar ekkert nema sigur ef halda á í við Celtic (og Hearts) í toppslagnum.

Mínir menn í úrvalsdeildinni átti afleitan októbermánuð og fengu ekki stig auk þess sem þeir féllu úr deildarbikarnum í vítaspyrnukeppni gegn Everton. Á móti kemur, að ef undan er skilin einn leikur þá var spilamennskan fjarri lagi afleit en lánleysið algjört. Það er því mín skoðun og margra pöndita að svo lengi sem menn fari ekki í eitthvað panik þá sé engu að kvíða.

Seinasti leikur var sigurleikur og engin merki um neinskonar örvilnan. Sör Alex hefur brugðist við, eins og hann gaf í skyn að hann myndi gera, eftir stigaleysi úr undanförnum leikjum með því að draga ögn saman seglin í sóknarleiknum og minni áhersla á „possession football“ en meiri áhersla á varnarleikinn.
Það hefur gjarnan verið hlutskipti liðsins í seinustu leikjum að vera meira með boltann, stýra leiknum, langtímum saman, skapa færi en nýtingin ekki góð. Hafa svo þurft að taka kjaftshöggin í skyndisóknum andstæðingsins.
Það er lítil huggun í því að hafa flotta tölfræði eftir leik ef þú hefur tapað.

Næsti leikur er áhugaverður fyrir margt. Útileikur gegn Chelsea og allra augu beinast að Stamford Bridge þar sem staða Móra er orðin ansi þröng. Auðvitað kemur að því að þetta fokdýra lið rétti eitthvað úr kútnum og komi sér í þokkalega stöðu í deildinni. Vonandi verður samt bið á því í bili og ekki yrði það leiðinlegt ef mínir næðu að velgja þeim bláu duglega undir uggum og auka enn frekar á þrýstinginn á brottrekstur en sumir sparkspekingar telja það nánast óumflýjanlegt að ef illa fer fyrir heimamönnum í þessum leik, þá séu dagar Móra taldir.

3 thoughts on “Svartur október að baki”

  1. Frábær pistill og greinilega lagst þungt á vefstjóra október-mánuður en koma tímar, koma ráð.

    Mikið óskaplega var Sociedad liðið arfaslakt og á löngum köflum grútleiðinlegt fótboltalið undir stjórn Moyes-arans. Ég hef þó engar áhyggjur af Moyes hvað stjórastöður varðar á englandi.

    Stamford Bridge um helgina og gott ef ég setti ekki örugga leikinn á chel$ea í þeim leik. En í rauninni eiga bláliðar nákvæmlega ekkert inni fyrir þeirri spá en einhvernveginn fór þetta þó þannig.

    Risavaxinn dagur í dag og hreinlega ósanngjarnt af samböndunum á spáni og englandi að stilla Man.City vs Liverpool og El Clasico á sama tíma upp. Það verður þungur róður fyrir mína menn á Ethiad vellinum og munum við líklega horfa upp á 2-0 tap í dag, en að sjálfsögðu mun Lovren gefa þeim bæði mörkin og mun hann gera aðrar 100 tilraunir í leiknum til að gefa færi á sér til handa andstæðingnum. Ég hef samið við almættið, gerði það nú í morgunsárið er ég samþykkti það að taka tapinu eins og maður og hann ætlaði að sjá til þess þá að $terling gæti ekki neitt. Það var samningur sem við báðir vorum ánægðir með.

  2. Eins og búið að vara að segja fyrir leik Norwich í dag, þá væri þetta kannski mikilvægasti leikur tímabilsins fyrir Chelsea og kannski versti tími tímabilsins að mæta þeim þar sem nú hefðu þeir haft tíma til að setjast yfir hlutina og annað hvort kæmi sigur í dag eða þetta væri dauðadæmt.
    – Besti leikur Chelsea á tímabilinu
    – Frábær leikur og frábær skemmtun. Chelsea (loksins) góðir en Norwich skila sínu líka.

    Jú, Chelsea hafði sigur og ég hef í sjálfu sér ekki yfir miklu að kvarta. Mínir voru inni í leiknu allt til enda og með smá heppni hefðum við getað stolið stigi.
    Við hefðum getað fengið víti í fyrri hálfleik en það sama má segja um andstæðingana.
    Við áttum góð færi en Chelsea átti fleiri. Ruddy átti frábæran leik og markvarsla á heimsmælikvarða frá honum í 3-4 skipti.

    Tap er aldrei gott en að vera í þeirri stöðu að vera hálf svekktur eftir tap gegn Chelsea er á vissan hátt ekki svo slæmt. Slæmt í dag en gefur von fyrir morgundaginn.

  3. Frábær pistill. Ég óttast ekki um Norwich að svo stöddu, liðin fjögur fyrir neðan þá hafa virkað svo mannaskítsléleg á mig það sem ég hef séð (þó minnst af Bournemouth) að ég hef ekki trú á að tvö þeirra overlappi kanarífuglana að svo stöddu.

    Written in the skies mætti segja um gengi Moyes og hvert það myndi leiða hann á endanum. Hálfgerð hörmungarsaga þessi ferill hans eftir brottförina frá Everton. Hann væri eflaust fínn í að taka við liði í skítnum og skila því í skjól. Mínir menn og Real Sociedad vilja bara meira en það.

    Sá ekki Liverpool leikinn en tölurnar segja nú ákveðna sögu. Af hverju ætli ekkert lið hafi reynt að ná í Klopp í sumar? Stjóri með slíkan árangur sýnir a sínum fyrstu vikum í starfi að Rodgers er aumingi. Af hverju þurftu eigendur Lpool að sjá það “strax” ?

Leave a comment